21.04.1939
Sameinað þing: 7. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í D-deild Alþingistíðinda. (3415)

63. mál, tímareikningur

*Flm. (Jóhann Jósefsson) :

Mér virðist, að svo megi líta á, að þessi mótbáru, sem fram hefir komið, sé ekki á allt of góðum rökum reist, en áður en ég vík að því, vil ég benda á, að í till. stendur, að heimilt skuli að flýta klukkunni frá 2. sunnudegi í apríl til 1. sunnudags í okt. Við vonuðum, að till. yrði afgr., áður en 2. sunnudagur í apríl væri liðinn, en eins og vita má, verður það ekki gert. því það er forhlaupin tíð.

Út af mótbárum forstjóra veðurstofunnar þarf fátt eitt að segja. Það er vitanlegt, að veðurfregnum er varpað út kl. 10 að morgni, kl. 3 að degi, kl. rúml. í að kvöldi og svo kl. 1 að næturlagi. Ekkert af þessum tíma virðist koma í bága við útvarpstímann, þó að klukkunni verði flýtt, nema ef vera skyldi útvarp veðurfregnanna kl. 7, en á því hlýtur að vera hægt að ráða bót.

Þá vil ég leyfa mér að vísa til bréfs frá póst- og símamálastjóra, þar sem hann segir, að það virðist ekki þurfa að raska starfsemi pósts og síma þó að klukkunni verði flýtt á sumrin. Um útsendingar til annarra landa þarf að sjálfsögðu að gæta þess, að senda einni klst. fyrr en ella. Að því er snertir mótbárur hv. þm. V.Húnv., að menn geti bara farið eins snemma á fætur og þeim sýnist, og því þurfi ekkert við klukkuna að eiga, þá er það í sjálfu sér rétt, að það er á valdi hvers einstaklings, hversu snemma hann fer á fætur, en þess ber þó að gæta að það vill nú jafnan verða svo. að okkur hættir við að fara eftir klukkunni, láta hana ráða háttum að kvöldi og rismáli að morgni.

Það er vitanlegt, að mál þetta snertir sveitirnar ekki eins mikið og kaupstaðina, þar sem þar er jafnan farið fyrr á fætur, og virðist mér því, að fulltrúar sveitanna ættu að geta látið mál þetta að mestu afskiptalaust. Röksemdir þær, sem hv. þm. V.-Húnv. hefir komið fram með gegn frv. þessu nú, voru og færðar gegn máli þessu 1917 þegar heimildarlögin voru sett, en ég sé ekki, að þau séu svo mikilvæg, að þau eigi að hefta framgang þessa máls, sem í alla staði er mjög þarft.