22.04.1939
Sameinað þing: 8. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 6 í D-deild Alþingistíðinda. (3423)

84. mál, náttúrufræðirannsóknir o. fl.

*Héðinn Valdimarsson:

Ég vildi geta þess í sambandi við þessa till., að í sjálfu sér get ég verið henni sammála, en mér finnast þær ástæður, sem flm. færði fyrir flutningi hennar, vera dálítið einkennilegar að sumu leyti. Það hefir nýlega verið skýrt frá því, að ríkisstj. hafi skipað nefnd til að hafa yfirstjórn þessara mála, og tveir af flm. þessar till. munu vera meðlimir þeirrar nefndar. Mér er ekki kunnugt um, að þessi nefnd sé skipuð samkv. ályktun frá Alþ. Nefndarmennirnir munu hinsvegar vera allir launaðir og þeir hafa tekið sér fyrir hendur að ráða framkvæmdastjóra fyrir sig. Það virðist því, að þessi till. sé fram komin til að löggilda þessa nefndarskipun eftir á. Það kom fram á þinginu í fyrra till. um fjárveitingu í sama skyni, en sú till. var felld með miklum meiri hl. Það er náttúrlega ekki nema gleðilegt, að þessi áhugi skuli vera vaknaður. en ég verð að segja. að mér finnst ekki nægilegt, að þessi n. komi til með að vinna langvarandi skipulagsbundið starf í því skyni að búa til einskonar spjaldskrá, eins og hv. þm. orðaði það. Ég held, að það eigi fyrst og fremst að leggja áherzlu á að rannsaka þá staði, sem menn vita, að til eru ýms efni á, málmar og annað. sem gætu verið uppistaða undir atvinnurekstri í framtíðinni. Það þarf ekki aðeins að rannsaka þetta fræðilega, heldur þarf einnig að rannsaka það, hvort það borgi sig að vinna þessi efni. En til þess að slíkar rannsóknir geti orðið framkvæmdar er ekki nægilegt að skipa slíka nefnd án nokkurrar lagaheimildar. Til þess þarf líka fjárveitingu, en hana verður ekki hægt að fá fyrr en næsta haust. Það hefði því átt að taka það fram í þessari till., að Alþ. ályktaði, að ríkisstj. væri heimilt að veita nægilegt fé til þessara hluta. En um það stendur ekkert í þessari till. Það væri náttúrlega ágætt, ef þessi till. hefði áhrif í þá átt, sem hv. flm. faldi, að hún mundi hafa, nefnilega að sporna við því, að erlendir .,vísindaleiðangrar“, sérstaklega frá Þýzkalandi, kæmu hingað unnvörpum og væðu um landið heimildarlaust. Hinsvegar sýnist mér enginn umbúningur á þessari till., sem mundi hindra slíkt.

Ég vil að lokum beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ríkisstj., hvað þeir nefndarmenn fái í laun, sem skipaðir hafa verið í þessa nefnd, og einnig hvað framkvæmdastjórinn hafi í laun.

Ég skal taka .það fram, að ég mun ekki greiða atkv. gegn þessari till., en finnst hún ganga allt of skammt til þess, að nokkur alvara sé sýnd í þessu mikilsverða máli.