22.04.1939
Sameinað þing: 8. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 6 í D-deild Alþingistíðinda. (3424)

84. mál, náttúrufræðirannsóknir o. fl.

*Flm. (Pálmi Hannesson):

Mér virðist, að hv. 3. þm. Reykv. hafi misskilið þessa till. nokkuð. Ég skal taka það fram, að þessi till. er algerlega óviðkomandi þeirri n., sem ríkisstj. hefir skipað til að sjá um hagnýtar rannsóknir. Hinsvegar er þess getið í grg., að það mætti þykja eðlilegt, að þessari n. yrði falin forsjá hinna fræðilegu rannsókna jafnhliða.

Fyrirspurninni um laun nefndarmanna var beint til ríkisstj., og sé ég ekki ástæðu til að svara henni.

Hv. þm. vildi draga nokkuð í eta, að þessi till. væri þannig úr garði gerð, að hún spornaði við rannsóknum erlendra manna hér á landi. Út af þessu skal ég taka það fram, að ég geri ekki ráð fyrir, að eftir að þessi till. hefir náð samþykki muni nokkur erlendur vísindamaður leyfa sér að koma hingað nema í samráði við okkur sjálfa. Það er mín skoðun, að það muni verða erfitt að setja föst lagaákvæði um þessa hluti, að öðru leyti en því, sem l. um útlendinga ná auðvitað yfir þessa menn. En það er að sjálfsögðu ekki í nokkru siðuðu landi litið á vísindamenn fyrirfram sem einhverja glæpamenn. Það er að sjálfsögðu gengið út frá, að menn komi í góðum tilgangi, eins og erindi þeirra hljóta að fela í sér.