26.04.1939
Sameinað þing: 11. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í D-deild Alþingistíðinda. (3444)

92. mál, vöruflutningaskip til Ameríkuferða

*Jón Pálmason:

Það er rétt hjá hv. síðasta ræðumanni, að till. mín um að vísa málinu til ríkisstj. er miðuð við það, að Alþ. taki ekki ákvarðanir um þetta fyrr en á framhaldi þessa þings á komandi hausti.

Mér finnst, að málið liggi þannig fyrir, miðað við það ástand, sem fyrir hendi er, að það sé mjög athugavert að taka ákvarðanir um það, að binda ríkissjóð við stórfelld ný framlög til Eimskipafél. Íslands. Hæstv. atvmrh. tók það fram, að hann liti svo á, að vald Alþ. og ríkisstj. yfir Eimskipafél. væri mjög takmarkað. Ég er því samþykkur. Það er takmarkað að því leyti, er snertir þær ráðstafanir, sem Eimskipafél. sem stofnun hefir ráð á að sjá fyrir. Hinsvegar skilst mér, að þetta mál sé komið inn á Alþ. vegna þess, að farið sé fram á stóraukinn styrk til þessa félagsskapar úr ríkissjóði. Það er atriði, sem Alþ. og ríkisstj. hefir að sjálfsögðu vald til að taka ákvarðanir um.

Hæstv. atvmrh. tók það fram, að hann teldi sig ekki bundinn af bréfi fyrrv. atvmrh. í þessu máli, og ekki heldur af till. þeirri, sem hér liggur fyrir, þótt samþ. yrði. Um þetta er það eitt að segja frá mínu sjónarmiði, að ég tel, að það heyri að sjálfsögðu undir Alþ. og ríkisstj. að taka ákvörðun um styrkinn. Þess vegna vil ég. að þeim ákvörðunum sé frestað þangað til fjárlög næsta árs verða afgr. Það er þetta, sem er ástæðan til þess, að ég vil ekki leggja til, að gerðar séu bindandi ákvarðanir í þessu efni, sérstaklega með tilliti til þess, að ég hefi upplýsingar um það frá stjórn Eimskipafél., að áætlaður rekstrarhalli á þessu skipi verði meiri en mundi verða á hinu stærra skipi, sem ég er í vafa um, að heppilegt sé að byggja. Það er rétt hjá hæstv. ráðh. að það er ýmislegt, sem mælir með því, að skipastóll félagsins sé aukinn, en eins og okkar fjárhag er nú komið, þá hygg ég, að gætilega verði að fara í það á öllum sviðum að auka gjöldin. Og ekki einasta það, heldur verði að gera gagngerðar ráðstafanir til að draga úr þeim. En mér virðist, að menn muni ekki enn hafa gert sér nægilega glögga grein fyrir því, hvernig ástandið er í raun og veru.