26.04.1939
Sameinað þing: 11. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í D-deild Alþingistíðinda. (3451)

92. mál, vöruflutningaskip til Ameríkuferða

*Frsm. (Jónas Jónsson):

Ég vil benda hv. 6. þm. Reykv. á ágæta grein í Vísi í dag. Ég get skrifað þar undir hvert orð, þó að ég geti það ekki alveg alltaf um greinar í því blaði. En blaðið tekur það fram, að þessa till. á þskj. 213 beri Alþingi að samþ., og færir góð rök fyrir því. Ég vona, að hv. síðasti ræðumaður taki tillit til þess, að þetta ágæta blað hefir komizt að þessari niðurstöðu.

Út af málsmeðferðinni vil ég benda hv. þm. á það, að við erum nú að hverfa frá störfum um margra mánaða skeið. Við getum því ekki haft frekari áhrif á málið. Við óskum þess aðeins, að hæstv. ríkisstj. geri þetta. Við getum ekki farið að semja við stj. Eimskipafél. nú. Það gæti vel verið, að stj. félagsins segði: Við kærum okkur ekkert um þessa aðstoð, — og nær það þá ekki lengra. Alþingi hefir þá ekki annað gert en leggja vissa möguleika í hendur stjórnarinnar.

Ég vil minna á það í þessu sambandi, að þegar Magnús Guðmundsson samdi um framlag til Eimskipafél. fyrir Brúarfoss, þá benti Jón Einarsson fulltrúi í atvmrn. honum á, að Eimskipafél. væri að byggja skip, og væru ef til vill möguleikar á því að semja við félagið um að hafa það kæliskip. Magnús Guðmundsson tók málið upp og tókst að fá því framgengt.

Hv. 6. þm. Reykv. spurði, hvort félagið hefði beðið um þetta. Ég get ekki svarað því að svo stöddu, en á umr.-fundi með stj. Eimskipafél. kom það fram, að stj. áleit, að þráðurinn væri slitnaður með stóra skipið. Svo spurði formaður félagsins í spaugi: Hvað viljið þið gefa okkur? Því gátum við ekki svarað. En það dettur engum í hug, að Eimskipafél. geti byggt 200 farþega skip án ríkisstyrks. Og um það verður að ganga atkvgr. á þingi. Ef hægt væri að byggja skip til Ameríkuferða, sem gæti tekið 2000 tonn af vörum auk farþega, þá væri það eflaust hin heppilegasta stærð, því að við höfum ekki efni á að hafa afskaplega stór skip.

Ég vona, að hv. 6. þm. Reykv. breyti um skoðun, er hann les Vísi og athugar, hvað Magnús Guðmundsson gerði. En málið getur vitanlega strandað á mörgu öðru, t. d. Eimskipafél. sjálfu eða hæstv. ríkisstj.