26.04.1939
Sameinað þing: 11. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í D-deild Alþingistíðinda. (3460)

80. mál, ríkisábyrgð á láni fyrir Sauðárkrókshrepp

*Pétur Ottesen:

Fyrir fjvn. hefir legið þáltill. um það, að ríkisstj. verði veitt heimild til þess að ábyrgjast fyrir Sauðárkrókshrepp allt að 125 þús. kr. viðbótarlán til hafnargerðar á Sauðárkróki. Eins og tekið er fram í nál., þá vantar heimild til þess, að áðurgreind upphæð eða sem því nemur sé tekin að láni með ríkisábyrgð, en með því einu móti er unnt að afla fjár til þeirra framkvæmda, sem fyrirhugaðar eru, og kostnaður við þær mun nema, eftir þeim upplýsingum, sem legið hafa fyrir fjvn. og vitamálastjóri hefir staðfest, allt að því 110 þús. kr. til viðbótar því, sem þegar hefir verið lagt til þeirra. Þær framkvæmdir, sem þarna er um að ræða, eru fyrst og fremst til öryggis fyrir hafnargarð, sem búið er að byggja fyrir nokkur hundruð þús. kr., og á að tryggja garðinn með því að koma fyrir grjótuppfyllingu utanvert við hann til öryggis fyrir norðanbrimi, og sömuleiðis ef ís ræki að landinu. Að öðru leyti er þarna fyrirtæki. er miðar að því að skapa möguleika fyrir því, að þarna geti hafizt einhverskonar starfsemi, sem gæti leitt af sér nokkrar tekjur fyrir höfnina. Það verður að viðurkenna. að ærin þörf sé á að ljúka þessu verki sem fyrst. þar eð búið er að binda mikið fé í þessu fyrirtæki, og nú þegar er búið að verja um 620 þús. kr. til hafnargerðar á Sauðárkróki, og það er fyrirhugað, að verkinu verði lokið á þessu sumri, og þá verður heildarupphæðin, sem til þess hefir verið varið, um 730 þús. kr. En til þess að standa undir svona mikilli fjárhæð, eða þeim hluta hennar, sem orðið hefir að taka að láni, þarf vitanlegu allstórfelldan atvinnurekstur, er gefi höfninni miklar tekjur. Þarna er því ærin nauðsyn á því, að nú þegar verði hægt að taka hafnargerðina til notkunar, einkum þar sem hún skapar stuðning til þess, að þarna geti hafizt arðberandi starfsemi.

Af þessum ástæðum hefir fjvn. fyrir sitt leyti getað fallizt á, að ríkisábyrgð verði veitt á láni til hafnargerðarinnar á Sauðárkróki, er nemi 110 þús. kr. Raunar getur verið, að ekki þurfi á svo mikilli ábyrgðarheimild að halda, því að enn er ónotuð nokkur fjárupphæð af þeim ábyrgðarheimildum, sem áður hafa verið veittar til hafnargerðarinnar, og því fé verður eytt fyrst. Þess vegna verður ekki notað meira af þessari ábyrgðarheimild en frekast er þörf á.

Í sambandi við þetta skal þess getið, eins og fjvn. hefir tekið fram í nál., að það er þegar búið að skapa fordæmi fyrir slíkum ábyrgðum ríkissjóðs í sambandi við hafnargerðir. Kostnaðurinn við þær er mikill, en þetta eru nauðsynlegar framkvæmdir, sem miða að því að skapa aðstöðu til starfrækslu. Nauðsynlegt er, að vatn verði leitt á hafnargarðinn, sem í þessu tilfelli hefir í för með sér allverulegan kostnað, sem mun nema um 35 þús. kr., því að hér hagar svo til, að vatn verður að sækja alllangan veg. Það er alveg bráðnauðsynlegur liður við notkun hafnarinnar, að nægilegt vatn sé þar, því að það er sægur skipa, er kemur til Sauðárkróks, og er því vitanlega nauðsynlegt, að nóg vatn sé til.

Að öðru leyti er þess vitanlega ærin þörf, að í sambandi við slík hafnarmannvirki sem þessi verði búið sem bezt í haginn fyrir góða aðstöðu til fiskaðgerðar og síldarsöltunar og annarrar slíkrar starfsemi, sem vitanlega þarf að fara fram sem allra fyrst hafnarmannvirkjunum sjálfum, til þess að ekki þurfi að leggja í allt of mikinn kostnað við flutninga á hráefni.

Alþ. hefir áður farið inn á þá braut, sem þessi þáltill. gerir ráð fyrir, sem sé við hafnargerðir á Skagaströnd og Hofsósi. Fjvn. lætur þess getið í nál. því, er fylgir þessari till., að hún hafi gengið inn á þessa stefnu, og leggur sérstaka áherzlu á það hvað vatnsveituna snertir, að hún sé nauðsynleg, því að það hefir verið gengið út frá því við þær hafnargerðir, sem framkvæmdar hafa verið á undanförnum árum og sambærilegar eru við þessa. að vatnsveita væri lögð, og kostnaður við það teldist til kostnaðar við hafnargerðirnar. Fjvn. lítur svo á, að nauðsynlegt sé að koma slíkum tækjum upp þar, sem það hefir ekki verið gert áður, og þess vegna er gert ráð fyrir vatnsveitu hér, og hefir verið gert á fleiri stöðum. sem sjá má af nál.

Þá vekur fjvn. athygli á því í nál., sem fylgir þessari till. að Skagafjarðarsýsla hefir lofað að leggja fram 100 þús. kr. til hafnargerðarinnar á Sauðárkróki. Þetta fé er ekki afturkræft, og hefur sýslan þegar greitt 70 þús. kr. af þessari upphæð. Hinsvegar hefir fjvn. talið rétt í sambandi við þessa ábyrgðarheimild fyrir ríkisstj., að á þessu ári verði innt af hendi greiðsla á því, sem þá stendur eftir af þessari upphæð, sem mun nema um 30 þús. kr. Ennfremur var vakin athygli á því í nál., sem fylgir þessari till., að hér hefir verið brugðið út af þeirri venju, sem fylgt hefir verið í líkum tilfellum sem þessu. Venjulega hefir verið látið fylgja ákvæði um það, að viðkomandi sýslusjóðir taki á sig sjálfsábyrgð gagnvart ríkissjóði, en það hefir ekki verið gert að því er þessa hafnargerð snertir, og hefir því sú ríkisábyrgð, sem til þessa verks hefir verið veitt, verið tekin upp sem heimildargr. í fjárl. En á móti þessu var gerð sú krafa, og varð að samkomulagi, að 100 þús. kr. yrðu lagðar í þetta fyrirtæki sem óafturkræft fé.

Ég hefi hlaupið í skarðið og haft framsögu í þessu máli, vegna þess að hv. form. fjvn. (JJ) var ekki kominn, þegar fundur var settur og þetta mál var tekið á dagskrá. Mun hann þá gera þessu máli frekari skil, ef hann telur ástæðu til þess.

Niðurstaðan af till. fjvn. í þessu máli er sú að fjvn. gengur inn á, að ríkisstj. verði heimilað að ábyrgjast 110 þús. kr. til þessa verks, í stað 125 þús. kr., sem upphaflega var lagt til, og sú upphæð er miðuð við það, að áætlað er, að það kosti um 110 þús. kr. að fullgera verkið.

Ég ætla svo aðeins að bæta því við, að eins og tekið er fram í nál., er gert ráð fyrir því, að ríkissjóður greiði 2/5 hluta allrar upphæðarinnar, sem hafnarmannvirkið kostar, og gera má ráð fyrir, að heildarkostnaðurinn verði um 730 þús. kr., þegar lokið er við þær framkvæmdir, sem er í ráði að gera á komandi sumri.