26.04.1939
Sameinað þing: 11. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í D-deild Alþingistíðinda. (3471)

90. mál, ríkisábyrgð á láni fyrir Ólafsfjarðarhrepp

*Eiríkur Einarsson:

Athygli manna innan þings og utan er nú óðum að aukast og áhugi fyrir rafveitum, og er það vel farið. Það sýnir mikinn menningarvott, að hinn rétti skilningur er nú alltaf að aukast, að betra og heilsusamlegra sé að lifa í ljósinu heldur en í myrkrinu.

Ég verð að láta það í ljós, að sú þáltill., sem hér liggur fyrir um ábyrgð fyrir Ólafsfjarðarhrepp, mun eiga mikinn og eðlilegan rétt á sér, og að það sé sízt ástæða til að setja sig á móti, að slík ábyrgð fáist, ef henni er framfylgt af hæstv. Alþ. á samsvarandi hátt við aðrar svipaðar þáltill., sem nú liggja fyrir. Það geta verið gildar ástæður og sjálfsagt mjög réttar fyrir kaupstaði og hreppsfélög að æskja ábyrgðar fyrir rafveitur, þar sem möguleikar eru fyrir hendi til þess að framkvæma þær. Og maður hlýtur, jöfnum höndum og þetta viðurkennist, að taka tillit til hins almenna ástands í landinu í þessum einum, og hefir verið nokkuð drepið á það af hv. 1. þm. Árn. í sambandi við það, sem fram hefir komið við þessar umr. Þegar maður athugar það, að þegar samþ. var ábyrgðin fyrir Ólafsfjörð fyrir nokkrum árum, þá var áhugi manna ekki orðinn eins almennur og nú fyrir rafveitumálum. Og nú hafa Ólafsfirðingar sótt um að endurnýja þá ábyrgð, og það má segja, að þeir hafa staðið vel á verði um að afla sér slíkrar heimildar.

En líti maður svo á þetta mál með hliðsjón af öðrum rafveitumálum, verður manni nær að setja hljóðan. Það var ekki tilviljun ein, sem réð, að stærsta verklega framkvæmdin, sem gerð var hér á landi á síðari hluta 19. aldar, brúin yfir Ölfusá, var hafin einmitt í þeim hluta þessa lands, sem stærstur er og blómlegastur og þar sem fólkið er flest.

Ég nefni þetta aðeins sem dæmi, til þess að sýna þá meginreglu, sem ekki aðeins á að gilda um brúargerðir og vegagerðir, heldur líka um öll samsvarandi mál, og þar með rafveitumálin. Frá því Sogsvirkjunin var ákveðin og þar til hún var framkvæmd var farið að rannsaka það af kunnáttumönnum, hvernig hægt væri að koma rafmagni frá Soginu, ekki aðeins til Reykjavíkur, heldur líka til nálægra kaupstaða og annarra byggðarlaga, sem bezta aðstöðu hefðu og helzt kæmu til greina í þessu efni, og þá mætti fyrst til nefna þau kauptúnin, Selfoss, Eyrarbakka og Stokkseyri. Á öllum þessum stöðum og nágrenni mundi slík rafveita bera sig vel í þessum blómlegu byggðarlögum.

Þessi menningarlega þörf biður úrlausnar. Það má segja, að margir staðir séu til hér á landi, þar sem slík rafvirkjun gæti borið sig, og þar á meðal efast ég ekki um, að Ólafsfjörður sé, en hinsvegar ber að líta á það, að með hverju misserinu, sem líður, hefir skilningur á þessum málum aukizt, því þegar eftir að farið var að gera Sogsvirkjunina, reyndum við að fá hjálp hins opinbera til raforkuleiðslna, en þá var það ekki heyrt af fjölda manna, sem ekki álitu sig eiga þar neina hagnaðarvon. Síðan hafa opnazt augu manna fyrir því, hve málefnið er gott. Ég vil ekki vera meinsmaður þess, að Ólafsfirði sé veitt þessi 50 þús. kr. ríkisábyrgð fyrir rafveitu, en af því að við vitum það vel, hve víða er nauðsyn fyrir slíka ábyrgð og þáltill. liggja nú fyrir hæstv. Alþ., sem munu bíða afgreiðslu til haustsins, þá finnst mér það vera sanngjarnt og réttlátt að láta einnig þáltill. um heimildina fyrir Ólafsfjörð bíða til haustþingsins.

Ef það er ekki tryggt, að málið sé að þessu leyti tekið upp á réttan hátt, þá verður í þessu tómt handahóf, sem menn eiga ettir að naga sig í handabökin fyrir og verður til mæðu í staðinn fyrir hagsbætur. Þetta er það, sem ég vona, að hæstv. stj. fari eftir, að hún hagi sínum undirbúningi þannig, að byrjað verði þar, sem byrja skal, með tilliti til þeirra hluta, sem ég hefi nú nefnt.