26.04.1939
Sameinað þing: 11. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í D-deild Alþingistíðinda. (3473)

90. mál, ríkisábyrgð á láni fyrir Ólafsfjarðarhrepp

Jörundur Brynjólfsson:

Ég vil vænta þess, að hæstv. forseti verði við fyrsta tækifæri við þeim tilmælum mínum, að bera fram þessa ósk mína um meðferð málsins.

Við hv. 7. landsk. vil ég segja, að mér finnst það eiga við hann, að sjaldan bregður mær vana sínum; þegar ég kom fram með till. um að fresta málinu, svo að stj. undirbúi það og leggi það fram á framhaldsþinginu í haust, þá segir hann, að ég sé að drepa málið. (GÞ: Eyða málinu). Það er karlmannlegra að vilja standa við orð sín, en það getur verið, að hv. þm. vilji nú hafa sagt eitthvað annað. Ef hann hefir þá trú, að svo framarlega sem málið verður rækilega athugað, þá sé það þar með úr sögunni og það verði því að aldurtila, þá verð ég að draga þá ályktun af því, að ekki sé vanþörf á að athuga málið og rannsaka það betur. Það dregur því sízt úr mér að bera fram þá ósk til hæstv. forseta, og ég held, að það sé fullkomlega réttlætanlegt, þegar aðalflm. málsins hefir ekki sterkari trú á málinu en þetta.

Hann vill láta það, sem fjvn. sagði 1936, gilda að öllu leyti nú. Það er eins og allt hafi staðið í sað nema sjálfur tíminn; hann hefir þó líklega runnið áfram, og við skrifum nú 1939. En ég hygg, að eins og ártalið hefir breytzt, þá hafi einnig ýmsar ástæður breytzt stórkostlega frá þeim tíma. Sú heimild, sem var þá veitt á Alþingi, er úr gildi fallin og féll úr gildi um leið og fjárlög þess árs. Síðan hafa kosningar farið fram og þing verið háð. Úr því að þessi heimild er úr gildi fallin, er eins mikil þörf á að fá hana samþ. nú eins og þótt málinu væri nú hreyft í fyrsta sinn. Þetta vona ég, að hv. 7. landsk., sem er að menntun sinni lögfræðingur, athugi, þegar hann fer að hugsa sig betur um og skapsmunir hans komast í betra jafnvægi en þeir höfðu, þegar hann byrjaði ræðu sína áðan.

Hv. þm. segir, að það sé ekkert óeðlilegt, að 2 till. fái mismunandi afgreiðslu. Ég býst við, að flestum þm. komi ekki ókunnuglega fyrir að heyra það. því að þeir hafa séð svo mörg dæmi þess. Hann drap á það, af því að ég vék að grg., af því að ég hafði ekki annað við að styðjast en þær röksemdir, sem málið byggist á, að það væri misritun og ætti að merkja allt annað. Það er ekki mín sök. Það heyrir til undirbúningi málsins og flutningi þess inn í þingið, sem virðist þá eitthvað vera á reiki.

Hv. þm. drap á það sem ástæðu fyrir því að fá þessa samþykkt nú og gera þessu máli svo miklu hærra undir höfði en öðrum samskonar málum, að rafmagnsstöðin í Ólafsfirði sé biluð og megi ekki nota hana eins og er, af því að rafmagnseftirlitið hafi bannað það. Ég er ekki í vafa um, að ef þeir, sem þarna eiga hlut að máli, sneru sér til rafmagnseftirlitsins, gætu þeir fengið þessa rafmagnsstöð lagfærða, svo að mætti notast við hana eitthvað áfram. Mótorstöðvar eru ótryggar, og verður oft að gera við þær, þegar þær fara að slitna. Það, sem Ólafsfirðingar því þurfa að gera, er að láta gera við þessa stöð, svo að þeir geti notað hana, þangað til þetta mál er leyst.

Ég hefi ekki með einu orði lagt á móti því, að Ólafsfjörður fengi þessa ábyrgð á sínum tíma. Þess vegna eru þessi stóryrði hv. þm. til mín og annarra þeirra, sem vilja láta athuga málið, óþörf og óviðeigandi, og hafi menn ekki oftrú á því að haga málflutningi sinum öðruvísi en menn almennt telja viðeigandi, þá ættu menn ekki að skrúfa sig upp í að hafa slíkan málflutning sem hv. 7. landsk. hefir hér nú. Ég gaf honum ekkert tilefni til slíks, og þó að hann þykist vel að sér í sinni mennt, þá ætti hann ekki að treysta sér svo mjög, að honum geti ekki skeikað, og þó að ég hafi ekki farið óvægilegar að honum en ég hefi gert, þá ætti honum að vera það nægur lærdómur til að haga sér eins og yfirlætislausir og stilltir menn gera.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða um þetta frekar. Ég vænti þess, að Alþingi líti með sanngirni og myndarskap á þessi mál og fari ekki að gera upp á milli mála. Þó að einhver peð séu að reyna að hlaupa á milli reita öðruvísi en réttar taflreglur gera ráð fyrir, þá ætti það ekki að hindra réttláta niðurstöðu hjá Alþingi.