26.04.1939
Sameinað þing: 11. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í D-deild Alþingistíðinda. (3475)

90. mál, ríkisábyrgð á láni fyrir Ólafsfjarðarhrepp

Einar Árnason:

Með þessari þáltill. er farið fram á, að Alþingi heimili stj. að ábyrgjast til Ólafsfjarðar allt að 50 þús. kr. Í sjálfu sér er ekki hægt að segja, að hér sé um stórt mál að ræða, þegar það er borið saman við ýmislegt annað og ýmsar samþykktir, sem gerðar hafa verið í fjármálum á Alþingi, en mér virðist hafa komið fram í umr. eins og talsverð hætta sé á, að hér sé um mjög varhugavert mál að ræða fyrir ríkissjóð; það sé yfirleitt mjög varhugavert fyrir Alþingi að heimila stj. annað eins og þetta. Mér finnst satt að segja þetta ekki bera vott um, að Alþingi hafi svo mikið traust á stj., ef það þorir ekki að fá henni annað eins mál og þetta í hendur.

Það hefir komið hér fram mjög meinleysisleg ósk um að vísa þessu máli frá þinginu, víkja þessum hræðilega kaleik frá mönnum undir því yfirskini, að einhverstaðar annarstaðar þurfi líka að koma upp rafveitum. Það er svo með Ólafsfjörð, að hann er í raun og veru hérað út af fyrir sig. Hann er mjög einangraður, svo að í raun og veru er mjög sjaldan hægt að komast þangað nema á sjó. Þarna er mannmargt þorp. Þar er nægilegt vatnsafl rétt við þorpið til virkjunar, svo að þorpsbúar geta fengið þar ljós og hita með tiltölulega ódýrri rafstöð.

Nú skyldu menn halda, að þetta mál sé ekki þann veg undirbúið, að tímabært sé að samþ.till. eins og þessa. En ef það væri svo, að eitthvað skorti á undirbúninginn, svo að ekki yrði neitt af framkvæmdum nú, þá er ekki mikil hætta á, að ríkissjóður verði fyrir mikilli byrði. Ég sé þess vegna ekki neina minnstu ástæðu til þess, að Alþingi fari nú að neita um þá heimild sem hér er farið fram á. Ég efast ekki um, að stj., ef hún fær þessa heimild, notar hana ekki, nema það sé víst, að þetta fyrirtæki geti komizt upp og hyggilega sé til þess stofnað og á því sé mikil nauðsyn.

Hv. 1. þm. N.-M. spurðist fyrir um það hér áðan, hvort Ólafsfjörður mundi ekki geta notið rafmagns frá Laxá í Þingeyjarsýslu, þegar það verður leitt til Akureyrar. Ég skal ekki fullyrða um þetta, en ég veit það, að hv. 1. þm. N.-M. er svo kunnugur staðháttum, sérstaklega þar nyrðra, að hann veit, að ef á að leiða rafmagn frá Akureyri til Ólafsfjarðar, þarf að fara yfir einn allra versta fjallgarð, sem til er hér á landi, með rafleiðsluna. Hann er afarsnjóþungur, og tímunum saman að vetrarlagi er þar gersamlega ófært fyrir nokkurn mann, og ef bilun kæmi þar, er óhugsandi, að þar sé hægt að gera við tímunum saman. (PZ: Alltaf er gert við símann þar). En það er ekki hægt að leggja rafleiðsluna á þeim stað, það er svo mikið úr leið, og þessi leiðsla yrði áreiðanlega eins dýr eða miklu dýrari en þessi rafstöð rétt við þorpið. Ég held því, að tæplega geti komið til mála að leiða rafmagn frá Laxárfossunum til Ólafsfjarðar. Það hefir verið tekið fram, að Ólafsfirðingar eiga nú við algerlega ófullnægjandi mótorstöð að búa, sem eins og tekið er fram í grg. er talið óforsvaranlegt að láta ganga, og það væri mjög óhyggilegt að fara að leggja peninga í að koma upp nýrri mótorstöð og ganga framhjá því þægilega vatnsfalli, sem þar er til.

Mér finnst satt að segja, að þessi litla ábyrgðartillaga geti ekki komið til með að standa í neinu sambandi við leiðslu á rafmagni um Suðurlandsundirlendið. Þetta tvennt er svo afskaplega fjarskylt, að ég sé ekki, að það standi í neinu sambandi hvort við annað.

Ég vil taka undir það, sem hv. 1. þm. Árn. sagði, að Alþingi ætti að taka undir þetta mál með sannsýni og myndarskap, en ég get ekki séð að sannsýnin og myndarskapurinn geti komið fram í öðru en að Alþingi samþ. þessa till. og geri með því Ólafsfirðingum mögulegt að framkvæma jafnnauðsynlegt fyrirtæki og hér er um að ræða, ef þeir á annað borð geta lagt fram það fé, sem til þess þarf, og yfirleitt allt það, sem nauðsynlegt er til þess að þetta geti orðið að fullum notum. En það er víst, að ef um þessa ábyrgð er neitað, þá er þetta mál drepið fyrir Ólafsfirðingum um ófyrirsjáanlega tíma.

Ég vil því vænta, að þegar um svona sanngirnismál er að ræða, sem er ekki heldur hættulegra en þetta sýnir sig að vera, þá sjái þingið sér fært að samþ. þessa till.