26.04.1939
Sameinað þing: 11. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í D-deild Alþingistíðinda. (3476)

90. mál, ríkisábyrgð á láni fyrir Ólafsfjarðarhrepp

*Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti! Mér skildist á ummælum hv. 1. þm. N.-M., að hann vildi fá að vita, hvort ekki væri fyrirhuguð leiðsla frá Akureyri og út með Eyjafirði vestanverðum og hvort Ólafsfjörður mundi ekki geta fengið rafmagn frá þeirri leiðslu. Hv. 2. þm. Eyf. kom lítillega inn á þetta, en taldi sig ekki vita glöggt skyn á því. Ég vil því leyfa mér að gefa nokkrar upplýsingar. Það hefir verið mælt fyrir leiðslu alla leið vestur til Siglufjarðar, og þá náttúrlega um Ólafsfjörð, en ég þori ekki að segja um nema vissa hluta af leiðinni. Leiðsla frá Akureyri að Hjalteyri er áætluð að muni kosta 250 þús., en þaðan að Dalvík 200 þús. Hvað leiðsla þaðan og í Ólafsfjörð kostar, veit ég ekki, en á þeirri leið er slæmur fjallgarður, og verður að hafa sérstakan útbúnað, svo að ég geri ráð fyrir, að þegar vegarspottinn til Hjalteyrar kostar 250 þús. kr., þá muni leiðin frá Dalvík til Ólafsfjarðar kosta meira en gert er ráð fyrir, að rafstöð í Ólafsfirði kosti, sem með gengisfalli er áætluð 155 þús. kr. Þetta hefir þær verkanir, að menn eru tregir til að leggja í langar og dýrar leiðslur þangað, og það má gera ráð fyrir, að þessar línur verði ekki lagðar nú um stundarsakir. Og ef Ólafsfjörður ætti að fá rafmagn þessa leið, þá yrði hann að standa undir línunni einn alla leið. Það eru því engar líkur til, að Ólafsfjörður geti fengið rafmagn frá Akureyri, a. m. k. ekki í náinni framtíð.

Hér er ekki farið fram á neina hóflausa ábyrgðarheimild, heldur aðeins ábyrgðarheimild fyrir láni, sem nemur þriðjungi stofnkostnaðar þessa fyrirtækis, eða nálægt því 50 þús. kr. Maður hefir nú séð hér í hæstv. þingsölum atkvgr. fyrir ekki mörgum mínútum síðan, þar sem heimiluð var ábyrgð fyrir meira en tvöfalt hærri upphæð, sem er ekki kannske til fyrirtækis alveg sama eðlis og þetta er, en nokkuð hliðstætt. Það er dálítið hlálegt að glúpna nú fyrir þessu, sem þó var búið að samþ. 1936, og bera því við, að ríkissjóður hafi ekki ráð á þessu. Hér er, eins og hv. 2. þm. Eyf. tók fram, þannig, að þetta litla mál, sem hér er á ferðinni, er alls ekki þess eðlis, að það á nokkurn hátt geti orðið til þess að spyrna fótum við stærri virkjun eða leiðslu rafmagns frá raforkuverum, eins og t. d. í sambandi við Sogið. Síður en svo. Þetta er alveg sérstakt mál fyrir þetta kauptún, og framgangur þess spillir ekki á neinn hátt fyrir öðrum byggðarlögum um að fá rafleiðslur hjá sér.

Mér virðist öll sanngirni mæla með því, að við verðum við þessari ósk Ólafsfirðinga um að veita ríkisstj. þessa ábyrgðarheimild hér í þessum þingsal í kvöld fremur en að fresta málinu til haustsins.