26.04.1939
Sameinað þing: 11. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í D-deild Alþingistíðinda. (3478)

90. mál, ríkisábyrgð á láni fyrir Ólafsfjarðarhrepp

Páll Zóphóníasson:

Það hafa þrír hv. þm. reynt að svara þeim spurningum, sem ég bar fram áðan. Fyrst hv. 2. þm. Eyf., sem svaraði spurningunni sýnilega frá sínu hyggjuviti, en gat ekki sagt neitt um beinan samanburð eða rannsókn, sem fram hefði farið á þessu, sem ég spurði um.

Í öðru lagi svaraði hv. þm. Ak. þeim og sagði, hvaða áætlanir hefðu verið gerðar um það, hvað kostuðu rafleiðslur frá Akureyri út með Eyjafirði að vestan á nokkru af leiðinni þaðan og til Ólafsfjarðar, sem hann virtist þó ekki vita með vissu um, hverjar væru.

Og sá þriðji, sem svaraði spurningu minni, var hv. 7. landsk., sem sló því föstu, að eftir upplýsingum þeim, sem fyrir lægju um það, sem ég vildi fá samanburð á, þá kæmi þar ekki neinn samanburður til greina. Og enginn þeirra minntist á virkjun Skeiðfoss.

Þessi svör þessara hv. þm. voru þess vegna á þá leið, að ég er sannfærður um, að þessi samanburður hefir ekki verið gerður enn. Þess vegna mun ég vera með því að láta afgreiðslu málsins bíða, þangað til sá samanburður fæst.