26.04.1939
Sameinað þing: 11. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í D-deild Alþingistíðinda. (3479)

90. mál, ríkisábyrgð á láni fyrir Ólafsfjarðarhrepp

*Eiríkur Einarsson:

Þegar ég tók til máls áðan, hagaði ég orðum mínum þannig, að ég óskaði eftir, að hæstv. ríkisstj. var ætlað að heyra orð mín. Þá voru hæstv. ráðh. ekki inni í þingsalnum. Nú eru þeir inni, og vil ég því að nokkru leyti endurtaka það, sem ég þá sagði.

Það er nú svo við þessar umr., að sumir hv. þm. skilgreinast sem meginhnettir, en aðrir sem fylgihnettir. Ég er hér eftir því fylgihnöttur.

Hér er um það rætt, hvort fresta skuli afgreiðslu þessa máls til haustsins eða samþ. þessa þáltill. nú þegar. Þessi tilmæli um frestun málsins til hausts voru borin fram af hv. 1. þm. Árn., og finnast mér þau vera á rökum byggð.

En það, sem ég að öðru leyti vildi sagt hafa um þetta mál, er þetta:

Þegar tillit er tekið til þáltill. um raforkulínur frá Sogsvirkjuninni til nálægra kauptúna og héraða, sem liggur fyrir hæstv. Alþ. með allmörgum brtt., eins og sjá má af þskj. þar um, og hinsvegar er litið á þessa þáltill., sem hér liggur fyrir, um það, að ríkisstj. heimilist að ábyrgjast 50 þús. kr. lán fyrir Ólafsfjarðarhrepp til rafveitubyggingar, og þegar jafnframt er á það litið, að síðarnefnd till. er komin hér til þess að standa eða falla við atkvgr., en hin fyrrnefnda, viðkomandi rafleiðslu frá Soginu, og brtt. við hana liggja allar í láginni til hausts, þá verður það að viðurkennast, að það er í raun og veru ekkert, sem ræður þessum mikla mismun á meðferð þessara mála, annað en það, að þessari Ólafsfjarðarþáltill. er fylgt fram með meiri festu heldur en þáltill., sem ég nefndi, er snertir Suðurland. Það er eins og þeir, sem heima eiga nálægt síldinni þar nyrðra, taki nú upp hætti hennar, því að þeir fara nú í stórum torfum til þess að keppast við að koma þessu máli fram hér á þingi. En það er ekki hægt að segja um fiskigöngurnar hér við Suðurland.

Ég vil segja það, að till. um heimild fyrir ríkisstj. til að ábyrgjast fyrir hönd ríkisins lán til þess að leggja rafveitur frá Sogsvirkjuninni, sem er miðuð við þorp og sveitir í nágrenninu, og síðan brtt. við það, að láta slíka ábyrgð gilda einnig á sama hátt fyrir fjarlægari sveitir og þorp, er miðuð við svo mannmargar sveitir og þorp, að ég tel rétt að láta eitt yfir þessar till. ganga og þá þáltill., sem hér er um að ræða, um ábyrgðarheimild fyrir Ólafsfjarðarhrepp. Ég álit rétt, fyrst till. viðkomandi Sogsvirkjuninni og leiðslum frá henni verður að bíða til hausts, að þessi till. bíði þá sama dóms.

Þegar um tilstyrk ríkisins er að ræða viðkomandi raforkulögnum, hvort sem það er ábyrgð eða bein hjálp, þá álít ég, að sú regla eigi að ráða, að beiðnum um slíkan tilstyrk sé sinnt í þeirri röð, sem eðlilegast er eftir allri aðstöðu, þ. e. a. s. þar skuli byrja og þeim fyrst veittur slíkur tilstyrkur, sem hafa líklegasta og bezta aðstöðu til að hafa slíks not, m. ö. o. þar, sem flestir geta notið ávaxtanna af því með sem minnstum heildarkostnaði, og þar, sem telja má, að raforkuframleiðslan fái fyrst og bezt borið sig. Og ef hæstv. ríkisstj. og aðrir, sem um þessi mál fjalla, taka þetta upp sem meginreglu, er rétt að farið.

Formælendur þess máls, sem hér liggur fyrir, halda því fram, að það komi ekkert rafleiðslum frá Sogsvirkjuninni við. Ég veit vel, að það er um rafveitu á öðrum landshjara, og þar stendur að ýmsu leyti öðruvísi á. En ef maður hinsvegar athugar, að raforkumál þjóðarinnar eru enn á ungu skeiði, en jafnframt mikilvæg og hafa færzt mjög í aukana með Sogsvirkjuninni, þá tel ég, að ríkisstj. sé móðgun ger, ef því er haldið fram, að eitt af þessum málum komi ekki öðrum rafveitumálum við. Því að það er skylda ríkisstj. að líta yfir þessi mál öll í samfelldri heild. Og þar sem mikið er sóti um slíkar ábyrgðir vegna rafstöðvabygginga og raflagna, verður að hnitmiða slíkar ábyrgðir við það, hvar nauðsyn er mest, með tilliti til þess, sem ég hefi sagt. Ég vil því láta eitt yfir allar þessar umræddu till. ganga um afgreiðslu á þessu þingi.