26.04.1939
Sameinað þing: 11. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í D-deild Alþingistíðinda. (3485)

90. mál, ríkisábyrgð á láni fyrir Ólafsfjarðarhrepp

Jörundur Brynjólfsson:

Fyrst svo er komið, að þetta mál þolir enga bið, ekki einu sinni stundarbið, og það á að keyra það í gegn með ofurkappi, eins og hér standi svo sérstaklega á, að hvergi geti annarstaðar komið neitt líkt til greina, verður útkoma lokaatkvgr. augsýnileg fyrirfram. Úr því að hv. þm. telja svo aðkallandi afgreiðslu þessa máls, þá virðist það eingöngu eiga við Ólafsfjörð af því, að þar sé bilaður mótor rafstöðvarinnar. Virðast þeir telja það svo mikið atriði, að allt annað eigi að leggjast til hliðar þess vegna. Hefi ég því leyft mér, ásamt nokkrum öðrum hv. þm., að orða brtt. við aðaltill. þá, sem hér er til meðferðar. Það þarf tvennskonar afbrigða fyrir henni, og vil ég mælast til, að hæstv. forseti fari fram á, að þau verði leyfð. Hún kemur of seint fram og er þar að auki að nokkru leyti skrifleg, en að nokkru leyti prentuð, og vona ég, að afbrigði fáist, þar sem ekki er um annað að ræða en að keyra málið áfram. Allir hv. þm. hafa samt tekið undir það með mér, að afgreiða eigi málið með sanngirni og myndarskap, og mér dettur ekki í hug að efa, að þann myndarskap og sanngirni muni þeir sýna fleirum en Ólafsfirði einum, heldur eigi þar allir að sitja við sama borð. Því geng ég út frá því sem gefnu, að afbrigði fáist og brtt. verði samþ. Brtt. er að mestu shlj. brtt., sem flutt var á þskj. 82 af þeim hv. þm. Rang. og hv. þm. Vestm. Með mér hafa gerzt flm. þessarar brtt. þeir hv. 2. þm. Árn., hv. þm. Mýr., hv. þm. Borgf., hæstv. atvmrh. og báðir hv. þm. Rang.

Ég hefi nú þegar talað tvisvar, svo að ég má víst ekki bæta miklu við þetta, en af því að ég á að svara til saka, þá vil ég mælast til þess við hæstv. forseta, að hann leyfi mér að gera stutta aths.

Í sjálfu sér er þegar búið að draga það fram, sem máli skiptir um till. Það er upplýst, að málið er hvergi nærri nægilega athugað; það kom fram út af fyrirspurn, sem hv. 1. þm. N.-M. bar fram, og virðast ekki aðrar upplýsingar liggja fyrir um undirbúning málsins en þær, sem felast í símskeyti frá oddvita Ólafsfjarðarhrepps, sem er um, að nú megi takast að framkvæma málið, en ber ekki á neinn hátt með sér, hver undirbúningur hafi verið gerður. Það má vel vera, að búið sé að leita eftir láni því, sem ábyrgðarheimildin á að vera fyrir, en ég sé ekkert á móti því, að þetta verði athugað eins og önnur hliðstæð mál, svo að tæmandi upplýsingar fáist um það, eins og um rafvirkjun í Árnesþingi.

Ég vil ekki skiljast svo við, að ég ekki svari hv. 7. landsk. lítilsháttar.

Honum fannst ég vera harðorður og óþinglegur, þegar ég nefndi hann fylgitungl þeirra hv. þm. Eyf., og hafi honum fundizt það móðgandi, þá þykir mér það leiðinlegt; ég meinti alls ekkert móðgandi með því. En mér fannst það heppilegra orðaval heldur en að kalla hann t. d. halastjörnu. Hv. þm. kvaðst ekki hafa sagt eitt misjafnt orð í minn garð í sinni fyrri ræðu. Má vera, að hann hafi þann mælikvarða. Hann sagði, að fyrir mér vekti að drepa málið. Það var allt annað, sem ég sagði. Ég lagði til, að málinu væri frestað í nokkra mánuði, þá færi fram athugun á því og síðan legði ríkisstj. þá athugun fyrir þingið. Út frá þessum ummælum mínum leggur hv. þm. þá merkingu í orð mín, að ég vilji drepa málið. Nei, ég vil láta eitt yfir öll þessi mál ganga. Þau eru öll nauðsynjamál, sem eðlilegt er, að almenningur hafi áhuga fyrir, og því finnst mér þessi aths. hv. þm. ekki meinlaus, — öðru nær. Hv. þm. endaði, eins og hann byrjaði, á því að býsnast yfir, að ég skuli andmæla þessari till.

Hv. þm. lætur sér sæma að hlaupa með gamlar blaðalygar, og kemur það mál ekki við mig, þótt hann telji sér slíkt sæmandi. Og ég ætlast sannarlega ekki til, að hann telji sig sitja á þingi fyrir neina náð frá mér. Ég hefi til þess enga kröfu gert og veit ekki til, að ég hafi neitt tilefni gefið til slíkra ummæla. Ef ég vildi haga mér eins og hann, að fara út í persónuleg ummæli, þá veit ég ekki nema hægt væri e. t. v. að finna einhverjar prósentutölur, en ég tel það fyrir neðan mig að hafa slíkt um hönd.

Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um þetta, en þakka hæstv. forseta fyrir, að hann leyfði mér að gera þessa aths., og óska, að þingheimur beri giftu til að gera þessu máli þau skil, sem viðunandi eru.