26.04.1939
Sameinað þing: 11. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í D-deild Alþingistíðinda. (3493)

90. mál, ríkisábyrgð á láni fyrir Ólafsfjarðarhrepp

*Pétur Ottesen:

Það er nú komið í ljós, hve mikil heilindi voru í tali hv. 7. landsk., að sjálfsagt mundi verða tekið með mesta velvilja öðrum till. um samskonar nauðsynjamál og um ræðir í þáltill. þessari. Það leið ekki nema klukkutími frá því, að hann talaði þessi fögru orð, þangað til hann stóð upp og eggjaði þm. til að neita um, að slíkar till. yrðu ræddar á Alþingi. Þessi framkoma er svo langt fyrir neðan allar hellur, að það er ekki hægt að grafa annað eins upp í sögunni hér á Alþingi. Það er hörmulegt, að slíkt ólán skuli hafa komið fyrir þessa stofnun, að maður með slíku hugarfari hefir komizt inn fyrir veggi hennar. Það er ekkert um að tala, þó að svona persónur séu til, heldur að sá, sem hefir þann mann að geyma, skuli verða fulltrúi á þingi þjóðarinnar.

Hv. 1. þm. Eyf. talaði fyrir till., og honum vil ég svara nokkrum orðum. Hv. þm. (BSt) taldi, að þetta mál væri búið að afgr. fyrir 3 árum í fjvn. og Alþingi. Ég vil henda honum á þær breytingar, sem orðið hafa á þessu tímabili. Fyrir þinginu liggur heildarlöggjöf um þessi efni, sem felur í sér fulla lausn þeirra í mörgum héruðum. Breytingar og rannsóknir síðustu ára hafa komið málunum á þann rekspöl, að slíka löggjöf er hægt að setja og framkvæma. En þá krefst heilbrigð skynsemi þess, að ekki sé slitið út úr eitt atriði, heldur sé frestað að taka ákvörðun um málið, sem liggur hér fyrir, þangað til heildarlausnin fæst og framkvæmdir í þessum stórmálum standa föstum fótum. Og það því fremur sem ekkert af þessu er hægt að framkvæma án styrks frá því opinbera. — Ég vildi láta í ljós undrun mína yfir því, að hæstv. fjmrh., sem ég sé, að nú er viðstaddur, skuli ekki hafa látið til sín heyra, því að fyrir ríkið er það stórmál fjárhagslega, hvernig slíkum ábyrgðum á að haga. Til þess er fjmrh., að hann sé leiðandi maður í fjármálum, bæði á Alþingi og þann tíma, sem Alþingi situr ekki. Hér liggja fyrir tillögur, sem kosta margar milljónir, þegar til kemur, og það tekur til fjmrh., þó að minna væri. Mér finnst full ástæða til þess, þegar fyrir liggja áætlanir um slíkar framkvæmdir í einum sex sýslum, að afgreiðslan sé látin ganga hér jafnt yfir alla. Ég vil því gera það að minni till., að þessari þáltill. verði vísað til ríkisstj. og hún taki málin öll til frekari athugunar, þangað til þing hefst aftur, væntanlega 1. nóv. í haust.