26.04.1939
Sameinað þing: 11. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í D-deild Alþingistíðinda. (3499)

90. mál, ríkisábyrgð á láni fyrir Ólafsfjarðarhrepp

*Garðar Þorsteinsson:

Herra forseti! Ég skal ekki tala lengi. Ég vil aðeins segja hæstv. atvmrh. (ÓTh) það, að það er hvorki vítavert né fáheyrt, sem hér hefir komið fyrir, að neitað var um afbrigði fyrir brtt. við mál það, sem hér liggur fyrir. Hæstv. ráðh. veit, að þessi brtt., sem kom hér fram í kvöld, kom ekki fram til þess að vera samþ. — því bjóst enginn við — heldur kom hún fram til þess, ef hún hefði verið samþ., að drepa málið, sem fyrir liggur. Og þegar vitað var, að sú leið var farin í þessum miður heiðarlega tilgangi, þá veit ég, að ef hæstv. atvmrh. hefði staðið í þeim sporum að vilja þessa þáltill. samþ., þá hefði hann ekki talið það vítavert eða fjarstæðu að neita um þessi afbrigði.

Ég vil benda hæstv. atvmrh. á, að hér er aðeins um heimild að ræða. Ríkisstj. hefir það fullkomlega á valdi sínu, hvort hún neitar um þessa ábyrgð eða veitir hana. Ef það sýnir sig, að virkjunin sé þannig undirbúin, að ekki sé rétt að veita þessa ábyrgð, eða að þær tryggingar, sem ríkisstj. vill hafa, eru ekki fullnægjandi, þá getur ríkisstj. neitað um ábyrgðina. Og sjálfsagt lætur ríkisstj. rannsaka þetta mál áður en hún veitir ábyrgð þessa.

Hv. þm. S.-Þ. (JJ) virtist vera að beina til mín orðum sínum í sambandi við það, að neitað var um afbrigði fyrir brtt. Ég vil spyrja þennan hv. þm. um það, hvers vegna hann hafi viljað veita þessi afbrigði. Hann vildi ekki gera það til þess að koma fram málinu, heldur til þess að geta komið þessu máli þannig fyrir kattarnef. Það var heldur ekki eðlilegt, að þessi afbrigði væru veitt, þegar vitað var, í hvaða tilgangi nokkrir hv. þm. vildu veita þessi afbrigði. Það er frá þessum hv. þm. komið, að staðið er á móti þessu máli og að nokkrir hv. þm. telja ekki, að Ólafsfirðingar eigi að fá þessa rafveitu. Ég vil einnig endurtaka það gagnvart þessum hv. þm., að hér er aðeins um endurnýjun á ábyrgð að ræða, sem veitt var 1936, þegar fjmrh. var hæstv. viðskmrh. (EystJ), og þá mun þessi hv. þm. hafa samþ. þessa ábyrgðarheimild. Og hann hefir ekki gert nokkra tilraun til þess að benda á, að aðrar ástæður séu fyrir hendi nú í sambandi við þetta mál en voru þá. En það er upplýst, að Ólafsfjarðarhreppur er megnugri nú að koma virkjuninni í framkvæmd en hann var árið 1936. Og ef hv. fjvn. hefði viljað athuga málið, þá vissi hún þetta, því hreppsnefnd Ólafsfjarðarhrepps skrifaði um þetta mál til hv. fjvn. og hún biður fjvn. um þessa ábyrgð. Ef fjvn. hefði athugað málið, þá má gera ráð fyrir, að hún, eftir að hafa samþ. það 1936, hefði ekki hvað eftir annað reynt nú að hindra framgang þessa máls hér á hæstv. Alþ. (BjB: Hver hindraði það?). Það má spyrja formanninn. Hann stendur þarna í dyrunum.

Hv. þm. Borgf. lét hér nokkur miður sæmileg orð falla í minn garð. Er þetta í annað sinn, sem hann ræðst að mér með persónulegum svívirðingum og skömmum. Ég læt þetta nú framhjá mér fara. En ef hann í þriðja sinn sýnir slíka framkomu í minn garð, þá mun ég taka undir þá ósk með háttvirtum þingmanni Ísafjarðarkaupstaðar, að hann væri aftur kominn í hrútakofann.