26.04.1939
Sameinað þing: 11. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í D-deild Alþingistíðinda. (3501)

90. mál, ríkisábyrgð á láni fyrir Ólafsfjarðarhrepp

*Þorsteinn Þorsteinsson:

Hv. 2. þm. Eyf. (EÁrna) gat þess, að honum virtist sér koma það undarlega fyrir sjónir, að mál þetta væri sótt með svo miklu kappi. En ef mál hafa verið sótt með kappi hér á hæstv. Alþ., þá er það sérstaklega þetta mál. Það hefir verið sótt með kappi, og ég vil segja offorsi, þannig að það hefir ekki fengið afgreiðslu eftir venjulegum reglum, sem hafa átt sér stað um afgreiðslu annarra mála; þær reglur hafa ekki fengið að komast að um þetta mál. Það hefir ekki fengizt, að þessu máli yrði vísað til n. Og allan þann tíma, sem ég hefi setið á þingi, sem er að vísu ekki langur tími, man ég ekki til þess, að nokkur ábyrgðarfrv. eða ábyrgðarþáltill. hafi verið afgr. svoleiðis, að fjvn. hafi ekki verið gefinn kostur á að segja álit sitt um málið.

Ég er ekki að segja, að þetta mál sé stórt. En það er þó það stórt, að hér er um að ræða ríkisábyrgð fyrir hálfu hundraði þús. kr., og a. m. k. hefði um afgreiðslu þessa máls mátt hafa sömu reglur og um afgreiðslu annarra hliðstæðra mála.

Ég hygg, að það sé óhætt að segja, að einstaklingum þyki enginn leikur að ganga í ábyrgðir og að þeir hafi oft orðið að finna til þess, að það hafi komið til með að verða meira fyrir þá en handskriftin ein oft, að taka slíkt á sig. Það hafa oft fylgt því óþægilegar afleiðingar. Og ég hygg, að það megi líka segja um ríkissjóð, að hann hafi stundum orðið að uppskera miður góða ávexti af því að hafa gengið í ábyrgðir. Það má því ekki minna vera en að fjvn. fái að athuga, hvernig til þeirra mála er stofnað, sem ríkissjóður gengur í ábyrgð fyrir. Nú við afgreiðslu þessa máls hafa nokkrir hv. þm. þjappað sér saman um að fylgja þessu máli fram án þess að á því verði höfð venjuleg afgreiðsla í n. Sósíalistafl. hefir viljað sparnað (VJ: Kommúnistar!). Það getur nú verið. (BrB: Hv. þm. velt vel, hvað hann segir, og fer ekki nema með rétt mál; það er ekki hætt við því). Annað eins hefir nú komið fyrir óvart. — Þeir menn, sem lýst hafa hátíðlega yfir því, að þeir ætluðu að skipa sér sem þéttast um það að spara og að niðurskurður á fjárl. ætti sér sem mest stað, og telja það allra meina bót, þeir hafa nú, með hæstv. fjmrh. í broddi fylkingar, undantekningarlaust greitt atkv. á móti því, að málið væri fengið fjvn. til athugunar. Mér virðist þetta nokkuð langt gengið í þessu atriði, og ég vænti þess af þeim fl., að hann mundi ekki vilja hraða svo þessu máli, að það fengi ekki skynsamlega athugun.

Um þá hv. þm. Eyf. og uppbótarþm. þeirra hefi ég ekki annað að segja en það, að það er ekki nema mannlegt, þó þeir beiti sér fyrir þessu máli fyrir sína kjósendur. Ég ætla ekki að fást um það.

Hv. 1. þm. N.-M. (PZ) tók það fram, að mál þetta væri lítið athugað með tilliti til þess, hvort raforkuleiðsla frá Dalvík til Ólafsfjarðar yrði ódýrari heldur en að setja upp sérstaka rafveitu í Ólafsfirði.

Ég álít, að landið hafi ekki svo breitt bak, að það muni ekki um ábyrgð, sem nemur um hálfu hundraði þús. kr., því að reynslan hefir sýnt, að oft hafa orðið vanskil á því hjá mönnum að greiða skuldir. Og ég verð að segja það, að ég lofa þá bjartsýni þeirra hv. þm., sem nú telja okkar land svo vel stætt, að það muni ekki um að ábyrgjast 50 þús. kr. lán upp á von og óvon. En það er þá bara, að þeirra álit sé ekki á sandi byggt.