26.04.1939
Sameinað þing: 11. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í D-deild Alþingistíðinda. (3503)

90. mál, ríkisábyrgð á láni fyrir Ólafsfjarðarhrepp

Skúli Guðmundsson:

Er ekki hæstv. fjmrh. svo nálægur hér, að hann megi heyra mál mitt? Hæstv. fjmrh. gat þess, að það væri óeðlilegt að hafa svo miklar umr. um slíkt smámál, þar sem aðeins væri um að ræða 50 þús. kr. ábyrgðarheimild. Ég vil benda þessum hæstv. ráðh. á, að ef hann ætlar að verða með öllum ábyrgðarveitingum eða fjárframlögum, sem eru 50 þús. kr. eða þar fyrir neðan, þá getur skeð, að það dragi sig saman, svo það verði álitleg upphæð, því ef hvert kjördæmi kæmi með 50 þús. kr. til ákveðinna framkvæmda, þá væri það þegar orðin stór upphæð.

Ég verð að segja, og er ég þar sammála ýmsum öðrum, sem talað hafa hér, að þeir, sem flytja þetta mál, virðast hafa beitt þar nokkurri frekju. Ég skal játa, að það væri æskilegt, að Ólafsfjörður gæti haft rafmagn. En það eru nú svo mörg héruð hér á landi, sem ekki hafa getað orðið þeirra gæða aðnjótandi. Ólafsfjörður hefir þó rafstöð, þó hún sé ekki í fullkomnu lagi, sem mörg önnur kauptún — og ég tala nú ekki um sveitir — hafa ekki. Þetta mál virðist ekki heldur vera nægilega undirbúið, þar sem það hefir komið fram, að flm. geta ekki gefið frambærileg svör við þeim spurningum, sem til þeirra hefir verið beint út af þessu máli. Það mun vera lakar undirbúið en rafveitumál ýmsra annarra héraða, sérstaklega á Suðurlandi, sem nú fara fram á ríkisábyrgð til þess að koma sínum rafveitumálum fram, sem verða látin bíða til frh. þings.

Þeir menn, sem standa að þessari till., hafa með atkv. sínum komið í veg fyrir, að málið fengi athugun í n., og einnig neitað um afbrigði, svo það er ekki ofmælt, að þeir sækja þetta mál með nokkurri frekju. Ég tel það ógiftusamlegt, að hæstv. fjmrh. skuli byrja á því að standa með þeim, sem mesta frekju sýna í málaflutningi. Það lítur þá ekki út fyrir, að hann verði líklegur til að auka ábyrgðartilfinningu þm. í fjármálum, og ég tel það illt, ef hann heldur þannig fram stefnunni. Geri hann það, þá eru litlar líkur til, að rætist draumar ýmsra flokksmanna hans um meiri sparnað á ríkisfé en að undanförnu og lækkun skulda, sem margir eru sammála um, að æskilegt væri, að gæti orðið.