26.04.1939
Sameinað þing: 11. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í D-deild Alþingistíðinda. (3517)

86. mál, samþykki til frestunar á fundum Alþingis

*Héðinn Valdimarsson:

Ég skal ekki lengja umr. mikið. Það er öllum hv. þm. kunnugt, að við sósíalistar á þingi töldum það æskilegt, að leitað yrði nýrra umboða fyrir þm. eftir þeim breyttu viðhorfum, sem orðið hafa nú á þessu þingi. Þetta hefir ekki orðið að ráði, en í stað þess hefir ríkisstj. farið fram á þessa heimild til að fresta þinginu. Ég og mínir flokksmenn munum ekki greiða þeirri till. atkv. Að öðru leyti vil ég segja það út af þessari till., að ég tel, enda þótt þinginu verði frestað, þetta óheppilegan tíma til þess. Það veit enginn, hvaða tíðindi kunna að gerast í álfunni nú alveg næstu daga. Ég get ekki neitað því, að það muni vera nokkur uggur hjá mörgum út af þessu ástandi, og mér er það mikið sorgarefni, að þetta þing skuli ekki hafa gert neinar ráðstafanir til varúðar, ef hörmungartímar skyldu yfir okkur dynja vegna ófriðar í nágrannalöndunum. Ég geri nú fastlega ráð fyrir, að þessi frestunartill. verði samþ., en ég vil áður en ég lýk máli mínu beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ríkisstj., hvort ekki yrði, ef ófriður brytist út í okkar nágrannalöndum, þegar stefnt saman þingi.