22.04.1939
Sameinað þing: 8. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í D-deild Alþingistíðinda. (3536)

81. mál, vantraust á ríkisstjórninni, þingrof og kosningar

*Héðinn Valdimarsson:

Mér hefir borizt bréf frá forseta Sþ. til okkar sósíalista sem svar við bréfi frá okkur til hans, þar sem við óskuðum eftir útvarpsumr. um vantrauststill. okkar á ríkisstj. Hefir hæstv. forseti eigi séð sér fært að verða við þessum óskum. Nú virðist mér að vísu að þingsköp geri ráð fyrir því í öllum tilfellum, að umr. um vantraust skuli útvarpað, en við verðum að sjálfsögðu að hlýða þessum úrskurði í þessu máli, eins og öðru, enda þótt við teljum hann ranglátan og tvímælalaust brot á þingsköpum. — Ég vil nota tækifærið til að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forseta, hvenær hann hafi hugsað sér að taka þessa till. á dagskrá.