28.04.1939
Sameinað þing: 10. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í D-deild Alþingistíðinda. (3544)

81. mál, vantraust á ríkisstjórninni, þingrof og kosningar

*Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Ég ætla ekki að ræða frekar um vantraustið, en leiðrétta nokkrar missagnir, sem hafa komið fram í ræðum. Fyrst var það, að það hefði verið ég, sem sérstaklega óskaði eftir útvarpsumr., — en það var ákveðið í samráði milli flokkanna, eins og formenn þeirra, sem hér eru staddir, geta borið um.

Í öðru lagi vil ég vekja sérstaka athygli á, að því hefir verið haldið fram, að ríkisstj. vildi ekki ræða þetta mál opinberlega, en það eru einmitt þeir flokkar, sem að ríkisstj. standa, og ríkisstj. sjálf, sem bjóða til þessarar umr. á þeim vettvangi, sem alþjóð getur hlýtt á og mótstöðumennirnir borið fram sín rök.

Þá vil ég ennfremur segja út af aðstöðu Framsfl. í þessu máli, að svo vel vill til, að fyrir liggur mjög greinileg yfirlýsing af hálfu Framsfl. frá síðustu kosningum, að ekki verður gleggra kosið.

Ég var spurður að því í útvarpsumr., hvernig Framsfl. ætlaði að vinna eftir kosningar, og svaraði ég því, sem jafnframt var marglýst yfir í kosningabaráttunni, að hjá Framsfl. myndu málefnin marka línurnar. Þessi yfirlýsing var gefin á öllum fundum og kom fram af því, að einn kommúnistinn spurði þessa í útvarpsumr. þá. Jafnframt var það tekið fram í sambandi við það, með hverjum Framsfl. mundi vinna á næsta kjörtímabili, að hann mundi aldrei vinna með kommúnistum.

Nú hafa þau mál komið til sögunnar, sem Framsfl. telur fulla þörf á að sameina flokkana um, eftir því sem mögulegt er, og þarf ég ekki að rekja frekar, hver þau mál eru, atvinnumálin og framleiðslan.

Ennfremur vil ég leiðrétta það, sem fram kom í ræðu hv. 3. þm. Reykv. Á aðalfundi miðstjórnar Framsfl. var rætt um þessi mál og tekin um þau ákvörðun af fulltrúum flokksins, sem voru víðsvegar af landinu, og var sú ákvörðun í samræmi við áðurgreinda yfirlýsingu frá síðustu kosningum, að málefnin myndu marka línurnar. Framsfl. hefir þess vegna alveg hreina afstöðu í þessu máli og hefir enga ástæðu til að láta kosningar fara fram þess vegna. Væri til þess nokkurstaðar ástæða, að láta nýjar kosningar fara fram, þá væri það hjá Kommfl., sem lagður hefir verið niður í raun og veru og þm. hans því réttilega átt að leggja niður sitt umboð um leið. Það hefðu þeir átt að gera, ef þeir vildu koma fram sem heiðarlegir menn, en ríkisstj. getur ekki látið kosningar fara fram út af því, sem þeim bar að gera sem þingflokki.