25.04.1939
Sameinað þing: 10. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í D-deild Alþingistíðinda. (3546)

81. mál, vantraust á ríkisstjórninni, þingrof og kosningar

*Flm. (Héðinn Valdimarsson):

Ég sé, að hæstv. forsrh. hefir gleymt fyrirspurnum mínum, og vil ég því endurtaka, hvort það er tilætlunin að veita embætti skattstjóra og lögreglustjóra, sem svo lengi hafa staðið auð. Þessu er mjög einfalt að svara.

Ég ætla ekki að fara mikið út í svör hæstv. forsrh. Það er vitað, að framsóknarþingfl. ákvað að ganga ekki til samstjórnar nema þm. Alþfl. fengjust líka með, og sé ég ekki, hvaða málefnagrundvöllur það er. Nei, það átti að hrúga sem flestum þm. utan um stjórnina, svo að þeir hefðu betri afsakanir fram að færa þegar kæmi á þingmálafundina, eða að geta a. m. k. sagt, að hinir hafi ekki verið neitt betri. Enda hefir hér ekki verið talað um neinn málaefnagrundvöll, heldur kom yfirlýsing frá þessum flokkum um, að þeir mynduðu stjórn, sameiginlega stjórn. Það virðist hafa verið aðalatriðið, ekki hvaða stefnu stjórnin ætlaði að taka. Hitt þótti sjálfsagt, að mynda bandalag um að láta þessa menn standa saman að stjórn og leita ekki álits almennings um það. Svo er vitað, og hæstv. forsrh. er það kunnugt, að Framsfl. er ekki flokkur, sem nýtur trausts meiri hl. þjóðarinnar, og sú stjórnmálastefna, sem hann hefir tekið upp í seinni tíð, gerir það ekki heldur.