25.04.1939
Sameinað þing: 10. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í D-deild Alþingistíðinda. (3561)

91. mál, sala eða leiga Þórs ogHermóðs o. fl.

*Jóhann Jósefsson:

Herra forseti! Þessi þáltill. um að selja Þór og vitabátinn Hermóð hefir verið lítilsháttar rædd á vettvangi, þar sem mér var boðið að hlusta á fyrir skömmu, og gat ég þá lítið til þeirra mála lagt. En mér virðist, að það sé nauðsynlegt að rifja upp sérstaklega að því er snertir Þór það, að þegar Vestmannaeyingar afhentu ríkisstj. gamla Þór 1926, þá var það með þeirri skuldbindingu af ríkisins hálfu, að skipinu væri haldið út til björgunar og eftirlits við Vestmannaeyjar ákveðinn tíma úr árinu. Þegar gamli Þór svo strandaði, sem mun hafa verið 1930, þá urðu nokkur átök um það í þinginu, að hve miklu leyti þinginu bæri skylda til þess að halda þann samning, sem upphaflega var um þetta gerður, og niðurstaða varð sú í málinu 1930, að svofelld þáltill. var samþ., sem ég með leyfi hæstv. forseta vil lesa hér upp: „Neðri deild Alþingis ályktar að skora á ríkisstj. að sjá um það, að björgunar- og eftirlitsstarfinu við Vestmannaeyjar verði af hálfu ríkisins haldið áfram framvegis með ekki lakari skilyrðum fyrir Vestmannaeyjar en áður og að til þess verði notað engu ófullkomnara skip en Þór var.“

Í samráði við ríkisstj. gerði svo þingið ráðstafanir til þess að kaupa Þór, og hefir ríkið haldið honum út á sama hátt og áður var. Skal ég nú lýsa yfir því, að það hefir alltaf verið ljóst, bæði þeim, sem með gæzluna hafa farið við Vestmannaeyjar, og eins þeim, sem þessu hafa verið kunnugastir, að til þess að björgunarskip komi þar að gagni, þarf það að hafa mjög greinilega yfirburði yfir þau skip, sem það á að bjarga. Það hlutfall hefir ekki minnkað, heldur stækkað með þróun útgerðarmálanna þar eystra, þar sem mótorbátarnir eru orðnir öllu stærri yfirleitt heldur en þeir voru 1926.

Ég skil ákaflega vel afstöðu hv. fjvn., þar sem hún horfir á þann mikla mismun, sem á því er að gera út Þór, sem talið er, eftir upplýsingum útgerðarstjórnar ríkisskipanna, að kosti 188 þús. kr., með því að vera 5 mánuði á sjó og 7 mánuði bundinn við land, og hinsvegar, þegar litið er til Óðins, sem talið er, að kosti í rekstri 100 þús. kr. yfir árið, þó að hann gangi allt árið. Ég skil mjög vel, að hv. fjvn. sér það, sem í fljótu bragði virðist, að þarna megi allmikið spara. En þetta mál hefir miklu fleiri hliðar en í fljótu bili verður komið auga á. Og ég er ekki óhræddur um, að hv. fjvn. hafi ekki horft á þær allar eins og skyldi. Hv. frsm. fjvn. sagði það að vísu að því er Vestmannaeyinga snerti, sem hann nefndi sérstaklega eins og eðlilegt er í þessu sambandi, að það væri hugmyndin að bjóða þeim varðskipið Ægi sem gæzluskip. Væri um það að ræða, þá væri engin fyrirstaða af minni hálfu eða annara, sem líta á björgunarstarfið og eftirlitsstarfið við Vestmannaeyjar sem höfuðatriðið í þessu máli. En ég fæ bara ekki séð, að hv. fjvn. eða ríkisstj. gæti, hversu góður sem viljinn væri til þess, bundið Ægi við Vestmannaeyjar eins og gert hefir verið með Þór, ekki sízt vegna þess, að það er vitanlegt, að ef einhverstaðar strandar skip, þá hefir Ægir, oft með góðum árangri, verið sendur slíkum skipum til hjálpar og stundum orðið að dvelja vikum saman á strandstöðunum vegna þeirra hluta. En með því móti getur hann ekki verið bundinn við gæzlu á einum sérstökum stað.

Hv. frsm. fjvn. sagði ennfremur, að það væri í raun og veru ekki annað verkefni fyrir Þór nú heldur en þessi gæzla við Vestmannaeyjar. En ég vil benda á það, að þó að það megi teljast hans höfuðverkefni að líta eftir bátaflotanum, sem frá Vestmannaeyjum stundar sjó og hefir innanborðs frá 600 til 800 manns yfir örðugustu vetrarmánuðina — þó þetta megi teljast höfuðverkefni skipsins, þá hefir Þór líka verið notaður til hluta, sem ég býst ekki við, að hægt sé að nota Ægi til, a. m. k. ekki án þess að gera á honum einhverjar breyt. eða endurbætur, sem sé til fiskirannsókna. Mér hefir verið tjáð, að það hafi verið kostað ekki allfáum þúsundum eða jafnvel svo tugum þús. skipti til breyt. á Þór á síðasta hausti, einmitt með það fyrir augum, að hann kæmi að fullu gagni sem fiskirannsóknaskip. Og á fiskirannsóknaskipi þurfum við að halda og þyrftum e. t. v. á því að halda í miklu ríkara mæli heldur en hingað til hefir átt sér stað. Þarna virðist mér, að hv. fjvn. hafi alveg sézt yfir þetta hlutverk Þórs, sem hann er einn ríkisskipanna fær um að leysa af hendi eins og sakir standa. Skip eins og varðbáturinn Óðinn, með 240 hestafla vél, sem mun gera 8 mílna ferð í logni, er ennfremur alveg ófullnægjandi til þess að bjarga stórum vélbátum, og jafnvel þó að þeir séu ekki svo mjög stórir, þegar vindhraði er 10 eða 11, eins og oft á sér stað við suðurströnd landsins. Það gæti Óðinn ekki. Það yrði þá að vera miklu betra mótorskip og stærra en Óðinn, ef um mótorskip ætti að vera að ræða.

Þá vil ég benda á, að Þór hefir ekki einasta með góðum árangri gert öryggi þeirra manna, sem stunda sjó frá Vestmannaeyjum, meira, heldur líka bjargað miklu af veiðarfærum, enda hefir hann þess háttar spil, sem þarf til þess að lyfta veiðarfærum. Það getur verið, að Ægir kunni að geta lyft netatrossu þegar 60–70 net eru í bendu. en með mótorskipi væri það ógerlegt.

Ég skal að vísu ekki neita því, að viðhorfið er ekki að öllu leyti það sama nú og það var 1936, þegar talstöðvar svo að segja þekktust ekki, enda er björgunarstarfsemin orðin miklu hægari og auðveldari fyrir það, að talstöðvar eru komnar í nokkuð marga báta. En hinsvegar virðist mér stefnt á allt of tæpt vað, að ætla sér að vinda bráðan bug að því að afnema þessa gæzlu, sem Þór hefir haft með höndum, meðan ekki er séð, að neitt komi í staðinn til frambúðar, sem jafnist á við þá gæzlu, sem skipið innir þar af hendi.

Það er talað um í þáltill. að selja eða leigja bæði þessi skip. Ég geri ekki ráð fyrir, að fyrir þau fengist nokkurt fé, sem teljandi væri. Ég býst við, að tilgangur n. sé frekar sá, að losna við að gera skipin út, vegna þess hversu dýr þau eru í rekstri. Ég skal játa, að ég hefi ekki átt kost á að kynnast því nógu vel hjá Ríkisskip, hvort þar er svo hagkvæmlega komið fyrir ráðningu, að hægt sé að flytja menn til og frá, t. d. af Þór, þegar honum er lagt upp, og á varðbátinn eða önnur skip hjá Ríkisskip. En ef svo væri, þá mætti kannske sleppa nokkuð miklu af þeim kostnaðarlið, sem af útgerð Þórs leiðir, þá 7 mán., sem skipið liggur uppi, að undanskildum 1–2 eftirlitsmönnum, en aðrir skipverjar þá látnir vera við störf á öðrum skipum ríkisins.

Að öllu samanlögðu get ég ekki, eins og mátið liggur fyrir, mælt með því, að sú leið verði farin, sem n. bendir á. Ég játa, að það þarf að færa niður útgjöld ríkissjóðs á ýmsum sviðum, en ég veit ekki, hvort það er rétt að bera fyrst niður á þessari upphæð, sem miðar í fyrsta lagi að því að tryggja öryggi þeirra manna, sem á sjónum vinna, og jafnframt að tryggja þeirra atvinnu, þegar menn eru að hugsa sér að færa niður útgjöld ríkissjóðs.

Ég mun því, eins og þetta mál liggur fyrir, greiða atkv. á móti því, og það vegna þess, að í fyrsta lagi býst ég ekki við, að neitt verulegt fé fáist fyrir skipin, þótt þau verði seld, og í öðru lagi vegna þess, að ég sé ekki, að fært verði að binda Ægi við Vestmannaeyjar, eins og gert hefir verið með Þór undanfarin ár. Þau önnur skip, sem til greina koma, eru svo miklu ófullkomnari en Þór, að þar kemst enginn samjöfnuður að. Í þriðja lagi greiði ég atkv. á móti till. af því, að ég tel — enda er það viðurkennt af Alþ. — að Vestmannaeyjar eigi kröfu á hendur ríkisvaldinu um það, að gæzlu sé þar haldið uppi með skipi, sem á engan hátt sé veikara eða minna eða á nokkurn hátt verra heldur en Þór er. En ég vil benda hv. þm. á, að þegar talað er um Vestmannaeyjar, þá er ekki þar eingöngu að ræða um menn búsetta í Vestmannaeyjum. sem hér eiga hlut að máli, því það mun sannast mála, að af þeim mikla fjölda sjómanna, sem á vertíðinni stunda sjó frá Vestmannaeyjum, sé meiri hlutinn kominn annarstaðar að af landinu. Þetta er því engan veginn mál Vestmannaeyinga sérstaklega, heldur svo að segja allra landsmanna.