25.04.1939
Sameinað þing: 10. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í D-deild Alþingistíðinda. (3563)

91. mál, sala eða leiga Þórs ogHermóðs o. fl.

*Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti! Að því er snertir sölu vitabátsins Hermóðs, þá tel ég víst, að fjvn. hafi borið sig saman við vitamálastjóra um það mál, og það má vel vera, að það sé rétt að selja þann bát og flutningum til vitanna megi koma fyrir á ódýrari hátt. Ég hefi ekki getað séð af reikningum bátsins, hversu rekstur hans ber sig, því á reikningunum er honum aldrei fært til tekna svo sem neitt fyrir flutninga fyrir ríkið, og þess vegna er ekki hægt að bera saman, hvort verða myndi ódýrara að fá þennan flutning með öðrum skipum. En mér þykir ólíklegt, að svo sé, að varðskip eða strandferðaskipin geti annazt þessa flutninga án þess að rekstur þeirra verði mun dýrari við það. Ég geri ráð fyrir, að fjvn. og hæstv. ríkisstj. muni rannsaka þá hlið málsins.

En ég verð að taka undir það, sem hv. þm. Vestm. sagði, að lítið muni fást fyrir þetta skip. Hinsvegar mun það að sjálfsögðu vera vel fært til síldveiða, og væri þá ekki nema hagkvæmt, að skip, sem ekki væri þörf fyrir í flutningum, væri notað til framleiðslustarfsemi.

Ég lít allt öðruvísi á till. um sölu Þórs. Ég var mjög mótfallinn því, þegar það var samþ. og framkvæmt að selja Óðin, og þykist ég sjá hér áframhald sömu stefnu, þeirrar stefnu, að gera landhelgisgæzluna að vélbátagæzlu. En ég er sannfærður um, að sú stefna leiðir til þess, að í rann og veru er felld niður öll gæzla af Íslendinga hálfu. Það var svo með þessa vélbátagæzlu, að hún var í upphafi aðallega miðuð við það, að gæta veiðarfæra, og að sjálfsögðu eru vélbátar sæmilegir til þess að vaka yfir fiskimiðum, þar sem veiðarfæri eru lögð, því það er ekki líklegt, að róið sé á öðrum sviðum en þeim, að svona vélbátum sé fært að vera þar úti og gæta veiðarfæra. En ef gæta á landhelginnar fyrir ágangi botnvörpuskipa, bæði útlendra og innlendra, þá verður allt annað uppi á teningnum. Það er alveg víst, að þessir vélbátar komast varla hafna í milli í veðri, sem togarar geta togað í á grunnsævi. Það er enginn vafi, að ef vélbátagæzlan verður upp tekin, þá mundu þessi skip verða staðbundin á ýmsum stöðum við landið, en þó svo yrði, þá mundu þau samt sem áður ekki geta gætt landhelginnar í hörðum veðrum. Vélbátar af stærð Óðins komast varla út úr Ísafjarðardjúpi eða fyrir Bjarg, þegar stormasamt er fyrir Vestfjörðum og annarstaðar, þar sem algengastur er ágangur togara. Ég er ekki í neinum vafa um, að landhelgisgæzlan mundi að mjög miklu leyti falla niður, ef farið væri inn á þá braut, að vélbátar ættu að annast hana að miklu leyti, auk þess sem þessir vélbátar mundu eiga lítið erindi út úr höfn til þess að athuga um ferðir togara, því þeir mundu bara fá þá ánægju, að sjá þá sigla í burt og gefa sér langt nef.

Ég get ekki annað en látið í ljós óánægju mína yfir því, hvernig farið er með landhelgisgæzlumálin. Þessum málum hefir hrakað mjög í seinni tíð. Landhelgissjóður hefir sama sem verið lagður niður. Hann er varla til, nema að því leyti, sem honum eru talin þessi skip, því að í reiðufé á hann sama sem ekkert. Það hefir verið borið fram frv. hér á hv. Alþ. um að endurreisa þennan sjóð, því eins og fjárhag ríkissjóðs er komið, þá er lítil von um endurnýjun skipanna, ef ekkert fé er í sérstökum sjóði til þeirra hluta. Þetta frv. hefir ekki náð samþykki, en á sama tíma, sem landhelgissjóður hefir horfið, þá hefir verið tekin upp sú óheillastefna, að selja varðskipin úr landi og láta koma vélbáta í staðinn. Þetta tel ég vera einn þáttinn í þeirri alhliða fjárhagslegu og sjálfstæðislegu hrörnun, sem átt hefir sér stað síðastl. áratug.

Ég hefi ekki kunnugleika til þess að geta leyst úr því, hvort landhelgisgæzlan yrði ódýrari með vélbátum heldur en með stóru skipunum. Að sjálfsögðu þyrftu stóru skipin ekki að vera eins mörg og bátarnir, ef þeir væru eingöngu. En þessir leigubátar, sem notaðir hafa verið, hafa verið ákaflega dýrir í rekstri. Reikningana hefi ég ekki fyrir mér, en ég vænti þess, að hv. þm. hafi eins og ég kynnt sér þetta, því að landsreikningunum fylgir yfirlit yfir rekstur þessara báta, og af þeim reikningum má sjá, að þeir hafa orðið geysilega dýrir, enda gömul skip og úr sér gengin.

Ég get ekki neitað því, að kaupin á þessu skipi, sem nú er farið fram á að selja, voru frá mínu sjónarmiði hin mestu hneyksliskaup, þegar þau voru framkvæmd, en samt sem áður mun ég greiða atkv. gegn því, að skipið verði selt, nema því aðeins, að það verði gert í þeim tilgangi, að fullkomnara skip komi í staðinn. Með því þykist ég greiða atkv. gegn þeirri óhappastefnu, að breyta landhelgisgæzlunni úr gæzlu fullkominna og hraðskreiðra skipa í vélbátagæzlu, sem ekki myndi verða að neinu virt af þeim, sem vilja stelast inn í landhelgina.