25.04.1939
Sameinað þing: 10. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í D-deild Alþingistíðinda. (3566)

91. mál, sala eða leiga Þórs ogHermóðs o. fl.

*Jón Pálmason:

Ég ætla ekki að hafa langar rökræður um þetta mál, enda tel ég það litla þýðingu hafa á þessu stigi. En mér virðast ræður margra þeirra, er hér hafa talað, miðast við það, að verið væri að ákveða að selja þetta skip. En hér er aðeins um heimild að ræða.

Það liggur ljóst fyrir, að gera verður gangskör að því á næstunni að skera niður útgjöldin, eins og hægt er, sérstaklega þau, sem óþörf eru, og er raunar hætt við, að eitthvað af þeim þörfu fljóti þar með. Margt af útgjöldum á okkar fjárl. er hægt að skera niður án undirbúnings, en margt þarf líka undirbúnings með. Ástæðan til þess, að ég var með því í fjvn.samþ. þessa till., er ekki sú, að ekki er hægt að selja þessi skip fyrirvaralaust, heldur þyrfti hæstv. ríkisstj. að láta fara fram rannsókn á því, helzt á þessu sumri, hvort það er hægt. Þegar þess er gætt, að á þessum tveim skipum er 250 þús. kr. rekstrarhalli, þá sést, að ekki er þýðingarlítið að láta rannsaka. hvort ekki er hægt að koma þessum málum fyrir á hagkvæmari hátt, en það fer till. fram á. Við lauslega athugun og með þeirri takmörkuðu þekkingu á þessum málum, sem ég hefi, finnst mér ljóst, að minni vandkvæði eru á því að selja Þór en vitabátinn Hermóð.

Ég vildi aðeins taka þetta fram, af því að sumir hv. þm. hafa talað eins og miðað væri við það, að ákveðið skyldi að selja þessi skip. En hér er í rauninni ekki um að ræða annað en heimild til að selja þau, eftir að rannsókn hefir farið fram og ef hún leiðir í ljós, að af þessu geti orðið sparnaður.