25.04.1939
Sameinað þing: 10. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í D-deild Alþingistíðinda. (3569)

91. mál, sala eða leiga Þórs ogHermóðs o. fl.

Ísleifur Högnason:

Ég skal ekki lengja umr. mikið um þetta mál, því ég býst við, að þessi till. verði felld, í fyrsta lagi vegna þess, að hún inniheldur tvö mál, og í öðru lagi vegna þess, að enginn vafi er á, að meiri hl. hv. þm. er á móti því, sem farið er fram á í till., og ég efast um, að fjvn. hafi ætlazt til þess, að hún yrði samþ.

Til viðbótar því, sem sagt hefir verið, vil ég undirstrika það, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði, að stefnan í strandvarnamálunum sé röng og að reynslan hafi sýnt, að strandvarnirnar í sínu núverandi ástandi séu einskis virði. Það sýnir ljóslega, hvað þessi gæzla á vélbátum og einu varðskipi er gagnslítil, að nú á síðustu 16 mán. hefir ekki verið tekinn nema einn togari í landhelgi. Meðan skipin voru tvö og höfðu duglega skipstjóra, voru teknir tugir togara á ári, og skiptu tekjurnar af þessu tugum og jafnvel hundruðum þús. Þetta er því mjög hæpin sparnaðarráðstöfun, þar sem þessi tekjustofn rýrnar stórlega, eða næstum því hverfur. Í öðru lagi er vitanlegt, að fiskistofninn eyðist smám saman, þegar landhelginnar er ekki gætt. Það er enginn vafi á því, að veiðiþjófar eru enn til við strendur landsins, og þeim mun sennilega ekki fækka við það, að strandvarnirnar eru á góðum vegi með að leggjast niður.

Ég álít það heppilega aths., sem maður hér í hliðarherberginu gerði áðan, að ef Alþ. ætlaði að fara að spara við landhelgigæzluna á þennan hátt, væri eins gott að selja hana á leigu til þeirra, sem vildu nota sér að fiska í landhelgi.

Eftir upplýsingum hv. þm. Vestm. mun ríkisstj. og Alþ. bundið samningum við bæjarstjórn Vestmannaeyja um að halda uppi skipi við Vestmannaeyjar til björgunarstarfsemi. Ég hygg, að ekki muni vera ætlunin að svíkja þetta, heldur láta Ægi annast það starf, og sjá þá allir, hvernig landhelgisgæzlan á öðrum stöðum við landið verður af hendi leyst á meðan.