04.01.1940
Neðri deild: 102. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í D-deild Alþingistíðinda. (3598)

173. mál, launa- og kaupgjaldsmál

*Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Ég ætla ekki að lengja umr. mikið, en vil þó aðeins drepa á það, að hjá þeim ræðumönnum, er hér hafa áður talað, kennir allmikils misskilnings á orðinu „framleiðendur“, enda er það orð mjög oft misnotað, ekki síður en orðið „vinnuveitendur“. Verkalýðurinn á Íslandi, verkamenn og sjómenn, eru stærsti framleiðandinn í landinu; það eru þeir, sem sækja fiskinn í skaut Ægis og afla þeirrar framleiðslu, sem er stærsti liðurinn í útflutningi landsmanna. Bændur Íslands, þ. e. a. s. hin vinnandi bændastétt, er annar stærsti framleiðandinn, því að landbúnaðarafurðir eru næststærsti liðurinn í útflutningi landsmanna. En útgerðarmenn og þessh. eru í rauninni alls ekki framleiðendur, nema að því leyti sem þeir teljast eiga framleiðslutækin, því að þeir snerta aldrei á framleiðslunni sjálfir.

Í þessari till. er svo mikill hugtakaruglingur, að ég hefi ekki trú á því, að nokkuð almennilegt gæti út af því komið. Sjálfur frsm. talaði um framleiðendur og launastétt sem andstæður. Þetta kom fram sem ólík hugtök, en er raunar það sama. Ég verð að segja, að það, sem ýmsir framsóknarmenn komu með inn í kaupgjaldsmáiið, er að haga því á hverjum tíma eftir verði á framleiðsluvörum landsmanna. Það er afarfjarri lagi, meðan það skipulag, sem nú er, stendur. Þetta verður að gera sér ljóst, ef vel á að fara, sérstaklega meðan þau ákvæði eru sett í þjóðfélaginu, að þeir, sem kaupa vinnuaflið, leggi það fyrir sig að spekulera með það eins og mest þeir mega. Allt vinnuafl er eign launastéttarinnar í landinu, og þannig skapast völd þessarar stéttar með því að kaupa vinnuaflið. Það er því undir hennar stjórn komið, hverskonar verð fæst fyrir afurðirnar á hverjum tíma. Mér finnst ástandið vera þannig, að ekki sé hægt að ætlast til þess, að þeir, sem selja sitt vinnuafl, beri neina ábyrgð á og taki við afleiðingunum af, hvernig þessi stétt, sem kaupir vinnuaflið, rækir sitt starf. Það, sem felst í till. framsóknarmanna, er að láta þá, sem kaupa vinnuaflið, fá það fyrir sem minnst verð. Ef verkalýðsstéttin í landinu á að fá kaup að einhverju leyti í samræmi við verð vörunnar á hverjum tíma, verður hún að fá að ráða sölu vinnuaflsins. Þetta vildi ég rétt minnast á, rétt til þess að rifja upp fyrir einstaka þm., hvernig afstaða málsins er í raun og veru, en sem hv. flm. virðist hafa alveg gengið framhjá. Það fæst ekki með þessum rannsóknum nein undirstaða, sem hægt er að leggja til grundvallar fyrir kaupgjald í landinu.

Ég vil ekki fara lengra út í þetta mál að svo komnu, en læt nægja að segja mitt álit, eins og ég gat um áðan, en það er, að hér hefði orðið hugtakaruglingur hjá þeim, sem málið fluttu.