19.04.1939
Efri deild: 44. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í B-deild Alþingistíðinda. (361)

71. mál, Varmahlíð í Skagafirði

*Jónas Jónsson:

Ég ætla að leyfa mér að segja fáein orð um þetta frv., eftir tilmælum hv. þm. Skagf., sem flytja það í Nd.

Það stendur þannig á, að Skagfirðingar hugsa sér að koma upp skóla, gróðrarstöð og íþróttamiðstöð í Varmahlíð. Er þar vel á veg komið að byggja stóra sundlaug, með almennum samskotum. Hafa Skagfirðingar í hyggju að nota þetta nýbýli til þess að byrja þar á tilraunum með einskonar vinnuskóla fyrir héraðið.

Vegna hinnar þurrviðrasömu veðráttu í Skagafirði hafa torfbyggingar haldizt þar lengur en annarstaðar. Þó kemur að því, að Skagfirðingar munu lenda inn í steinsteypuöldinni, og tilgangur þeirra með stofnun vinnuskóla er sá, að kenna mönnum steinsteypu og smíðar og flýta þannig fyrir endurbyggingu héraðsins og gera steinsteypuna að einskonar heimilisvinnu.

Nýbýlið í Varmahlíð var byggt fyrir nokkrum árum. En bóndinn fór burt og seldi jörðina öðrum manni, sem hefir komið þar upp veitingastað. En það er augljóst mál, að mjög er óheppilegt að hafa veitingastað — kannske misjafnlega rekinn — ofan í þessum fyrirtækjum. sem ég minntist á. Nú hefir maðurinn, sem á þetta nýbýli sem stendur, verið að gera sig erfiðan og sent mótmælaskjal gegn því, að þetta frv. nái fram að ganga. Sýnir þetta, að hann vill ekki um neina sölu tala á þessari eign, og er því auðséð, að hentugra mun að fá þessa eignarnámsheimild afgr.

Ég skal geta þess, án þess ég viti, hvort það þykja meðmæli með þessu máli, að það vorum við Magnús Guðmundsson, sem stóðum að því að koma Varmahlíð inn í l. Mundi það því að nokkru leyti vera hans vegna, ef þetta frv. yrði samþ.