12.12.1939
Efri deild: 82. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í D-deild Alþingistíðinda. (3616)

145. mál, félagsdómur

*Flm. (Jónas Jónsson) :

Ég get verið samdóma hæstv. ráðh. um það, að það gæti vel farið á því, að málið færi til n. áður en atkvgr. færi fram um það.

En ég er ekki samdóma honum um það, að það hafi verið ófyrirsynju hreyft við þessu máli hér. Enda er hæstv. ráðh. kunnugt um, að minn flokkur hefir verið fylgjandi því um mörg ár, að stofnaður yrði félagsdómur. Og flokkur sá, sem hæstv. ráðh. er í, er mér og mínum flokki samdóma um það mál. Og málið komst í raun og veru seinna í höfn heldur en vænta mátti eftir því þingfylgi, sem það hafði. En ég álít það ekki bezt fyrir félagsdóm, eins og þó kom fram í ræðu hæstv. ráðh., að það séu látin liggja í þagnargildi þau bernskubrek, sem kunna að vera á störfum þeirra fyrstu manna, sem með hann fara. Og ég get upplýst viss atriði. Ég vil biðja menn að athuga, að mál þetta, sem um hefir mikið verið rætt hér, var ákaflega mikið hitamál, hið mesta hitamál, sem fyrir hefir komið hér á landi síðan Skúlamálið forðum var á Ísafirði, þegar Hnífsdælingar voru sóttir til að skakka leikinn á Ísafirði í pólitíkinni, þegar þess þótti þurfa. Það hefir aldrei síðan komið upp annað eins æsingamál og þetta í Hafnarfirði, sem um hefir verið rætt hér nú. Þessi ágreiningur var svo mikill í Hafnarfirði, að flokkur Héðins Valdimarssonar sendi daglega liðskost til Hafnarfjarðar. Þar að auki var annar málsaðili, sem átti sér fylgi verkamanna hér í Reykjavík svo mikið, að við lá, að annar verkamannahópur færi til Hafnarfjarðar. Að ekki varð af því, var að þakka mönnum, sem stilltu til friðar til þess að ekki yrði beitt ofbeldi. Hér var að ræða um stórkostlegt hitamál, sem hafði komizt lengra í öfgaátt en títt er hér á landi. Þess vegna held ég því fram, að það sé heppilegt, að félagsdómur viti, að því er veitt eftirtekt, hvern skilning hann hefir á málinu.

Ég get tekið það fram, að ég hefi ekki gagnrýnt neitt við félagsdóm nema þetta eina mái. sem kom Alþ. við.

Þá var það, sem hæstv. atvmrh. bar fram sem skýringu á því, að ekki var dæmt í þessu máli fyrr en . í haust. Og skýring hans er sú, að það veiktist annar málfærslumaðurinn, Pétur Magnússon, sem mun hafa verið heilsulítill í sumar, og svo biður hann um frest. Nú vil ég benda á það, að það er öllum kunnugt hér í bæ, að bæði er Pétur Magnússon mikill málaflm., og eins, að hann hefir einn af álitlegustu ungum lögfræðingum í bænum sem aðstoðarmann, og mun sá lögfræðingur vera talinn hlutgengur málaflm. við hvaða vandamál sem er. Þess vegna, frá sjónarmiði dómsins, ef dómurinn hefði bara skilið, hvers þingið hlaut að ætlast til, að ekki væri stefnt í voða með möguleikum fyrir upphlaup í Hafnarfirði, þá bar ekki að taka hið minnsta tillit til þess, þó að Pétur Magnússon væri veikur, þar sem aðstoðarmaður hans, Einar Baldvin Guðmundsson, var reiðubúinn til að taka þetta mál að sér.

En það er annar aðili, sem á þyngri dóm skilið af þinginu heldur en félagsdómur, og það er Guðmundur I. Guðmundsson, sem mér skilst koma út úr þessu máli sem hinn raunverulegi sökudólgur, sem hefði vel getað orðið mikill óhappamaður fyrir þennan bæ. Þessi maður, sem var málaflm. fyrir Alþfl. í þessu máli í Hafnarfirði, hann gengur inn á þetta. Hann er trúnaðarmaður málsparts í þessu máli, sem vildi beygja sig og una lögum og rétti. Ég leyfi mér að lýsa því yfir, að Guðmundur I. Guðmundsson hefir komið þannig fram í þessu máli, sem er ósæmileg frammistaða af málaflm. Alþýðusambands Íslands fyrir félagsdómi, með því að ganga inn á, að frestur í þessu máli yfirleitt yrði veittur. Og það er ekki búið með það. Nú sjáum við, hvernig hans afstaða er. Hann hafði brugðizt sínum umbjóðendum, sem höfðu trúað honum fyrir sínum málstað, því að Alþýðusamband Íslands kærir yfir þessu. Félagsdómur getur vitanlega sagt við Alþýðusamband Íslands: Ber þú sjálfur fjanda þinn, — því að hann hafði ekki útvegað þennan mann. En félagsdómur sýnir það, að hann er ekki nema á fyrsta árinu ennþá, með því, hvernig hann svo rökstuddi sína aðferð í málinu. Fyrst og fremst er beðið um tveggja mánaða frí, þ. e. a. s. allt sumarið, vegna veikinda aðalmálaflm. öðrum megin. Guðmundur I. Guðmundsson er það samvizkusamur, að hann álitur einn mánuð nógan tíma fyrir slagsmál í Hafnarfirði og vill ekki ganga inn á tveggja mánaða frest. Hvað segir félagsdómur þá? Honum finnst hart að hafa þetta ekki nema einn mánuð. Tveir mánuðir verða það að vera. Og ef þeir hefðu kynnt sér málið eins og a. m. k. þm. hafa vitað um það, að þessi deila var á góðum vegi með að gripa djúpt inn í þingið ekki einungis viðkomandi ríkisstjórninni, heldur mundu þm. hafa látið sig það miklu skipta, ef barizt hefði verið á öllum götum Hafnarfjarðar.

Í viðbót við þetta, sem mér finnst ákaflega skilningslítil ráðstöfun af hálfu félagsdóms, að biða mætti með þetta mál í 2 mánuði, þá kemur svo útskýring félagsdóms á því, hvers vegna þessi frestur hafi verið gefinn svona langur. Það hafi verið gert vegna þess, sem hæstv. ráðh. upplýsti fyrir hönd félagsdóms með því að lesa kafla úr bréfi, sem þeir hafa haft þá dirfsku að senda ríkisstj. með þessu innihaldi: Að ef þeir álíti, að við áflog og slagsmál lægi í Hafnarfirði, þá væru þeir reiðubúnir til að taka málið fyrir; og þó að þeir ætli að bíða eftir því, að Pétri Magnússyni batni, þá ætli þeir þó, ef barizt verði um allan Hafnarfjörð, að taka málið upp. Ég get ekki hugsað mér veikari aðstöðu í máli en þetta. Tökum til dæmis, ef kommúnistar hefðu haft sterkan flokk í Hafnarfirði, nokkur hundruð manns, og þeir hefðu talið sig beitta rangindum; og hefðu svo kommúnistar í Hafnarfirði í því tilfelli frétt, að dómurinn ætlaði að taka sér hvíld og biða eftir því, að veikum manni batnaði, þá þekki ég illa kommúnista og Héðinn Valdimarsson, ef þeir hefðu ekki byrjað barsmíðar og sagt: nú ætlum við að sýna, að við þekkjum nokkuð, sem heitir handafl. Svo hefði verið dregið saman lið í Reykjavík, ekki til þess að reisa hinn veika mann, Pétur Magnússon, upp úr sænginni, — nei, heldur til þess að félagsdómur kæmi saman til þess að gegna skyldu sinni.

Ég álít, að það geri ekki til, þó að atkvgr. fari ekki fram um þetta mál fyrri heldur en seinna á þinginu eða á næsta þingi. En þar sem er svo mikill ágreiningur um þetta mál, álit ég rétt, að Alþ. hafi tækifæri til að meta, hvernig það hefir gengið til í þessu þýðingarmikla máli, sem vísað hefir verið til þessa dómstóls.

Það, sem þá liggur ljóst fyrir í málinu, er þetta: Alþfl., sem hafði verið tregastur af þeim flokkum, sem ekki vildu byggja réttinn á ofbeldi, til þess að ganga inn á, að félagsdómi yrði komið á, — því að það hafði staðið alllengi á samþykki hans til að ganga inn á það fyrirkomulag —, þessi fl., Alþfl., er svo beittur sérstökum órétti og ofbeldi í þessu máli. Alþfl., eða deild hans í Hafnarfirði, vísar þessu til félagsdóms. Ég álít náttúrlega, að ekki hefði átt að synja þessum mönnum um aðstoð dómsins, þó lengi stæðu þeir á móti stofnun dómsins. En þeir höfðu beygt sig fyrir því, að lög og réttur réði í þessu þjóðfélagi, en ekki ofbeldi. En í því lá sósíalistískt pólitískur sigur í landinu, að annar verkalýðsflokkurinn hafði skilið við ofbeldið í því skyni að taka þá afstöðu eins og sjálfstæðismenn og framsóknarmenn að virða lög og rétt. Þess vegna verða þm. verkamannafl. fyrir svo miklum vonbrigðum, þegar verið er að leika sér með svona þýðingarmikið mál, að þeir skrifa hæstv. ráðh. Hæstv. ráðh. lætur svo segja sér um þetta mál eins og fyrir liggur af því, sem fram hefir komið hér.

Hér hefir bilað hlekkur í keðju í þessu máli. Og ástæðan til þess, að ég hreyfi þessu máli hér, er sú, að mér þykir ákaflega mikils virði þessi þróun, að mikill hluti verkamannastéttarinnar fór að vera samdóma þeim flokkum, sem stundum eru kallaðir borgarafl., um það, að þeir vildu ekki skoða ofbeldið sem hæstarétt fyrir sig. Ég hafði mikla samúð með verkamönnum í Hafnarfirði í þessu máli, því að mér fannst þeir koma drengilega fram, og þeir stilltu í hóf í þeim kringumstæðum, þegar aðrir hefðu farið með ofstopa. Þeir höfðu vikið málinu til dóms (og voru þá dregnir frá Heródesi til Pilatusar). Þá vissi ég ekki það, að málaflm. þeirra hafði bilað og að hann hafði leikið sér að því að afsaka sig með því, að hann væri að taka próf í hæstarétti, og þess vegna, fannst honum, mætti hann bregðast í þessu efni. Ég þykist vita, að Alþýðusamband Íslands hafi kært út af þessu. Þá hafa þeir trúað óhappinu við að velja þennan mann, sem þeir höfðu ekki búizt við fyrirfram og hefir ekki sýnzt gefa þeim gleði eftir á.

Ég tel ákaflega þýðingarmikið að heyra það bréf, sem hæstv. ráðh. las upp áðan. En ég vil láta það koma á prenti út um landið til kjósenda í Alþt., þó þau séu ekki mikið lesin, að félagsdómur hefir á sínu fyrsta ári ekki skilið betur sitt hlutverk að þessu leyti — ég veit, að hann hefir skilið margt vel og gert ýmsa góða dóma —, en hann hefir ekki skilið sitt hlutverk betur en það í þessu efni, að hann hefir treyst sér til að segja þessa setningu um það, að hann gaf þennan frest: Að hann hafi skotið þessu máli á svona langan frest í þeirri von, að ekki byrjuðu ólæti í Hafnarfirði. Þetta segi ég, að sé undirstöðuatriðið, sem gefur til kynna, að rétturinn er ekki alveg með á því, hvað til hans friðar heyrir. Þetta má sízt af öllu koma fyrir, að dómurinn segi þetta nokkurn tíma aftur, sem ég býst ekki við, að hann geri — eins og Þórbergur Þórðarson segir það ekki nema einu sinni, að hann hengi sig, ef ráðizt verði á Pólland — (Atvmrh.: Bara að hann geri það þá einu sinni.), eins vona ég, að þessir dómarar taki nokkurn lærdóm af þessu máli, þannig að slíkt sem þetta komi ekki fyrir aftur. En hitt er það, að það aðhald, sem rétturinn fær með þessu, er velviljað.

Ég óska alls ekki, að félagsdómur verði lagður niður. En ég held, að ég treysti mér til þess að sækja það mál á móti Guðmundi I. Guðmundssyni, t. d. í útvarpi eða blöðum, að hann hefir staðið sig alveg skammarlega í þessu atriði og að hann hefir komið afarilla fram fyrir þann hluta verkalýðsins, sem hafði stutt hina tvo borgaralegu flokka í að koma á þessum dómstóli í því skyni, að hér ríkti friður og ró í landi og að réttlátur dómstóll færi með mál verkalýðsins.

Þegar hæstv. forseti sér, að þær umr. hafa um þetta mál gengið svo lengi sem hann álítur ekki tíma til vera, þá vil ég óska þess, að málinu verði vísað til n., sem mér skilst, að geti verið allshn.