12.12.1939
Efri deild: 82. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í D-deild Alþingistíðinda. (3617)

145. mál, félagsdómur

*Bjarni Snæbjörnsson:

Það var eingöngu út af því, að hv. flm. þáltill. minntist á það, að vel gæti verið, að fleiri fengju að lesa þessar umr., sem færu hér fram á Alþ. um þetta mál (þó að fáir læsu þingtíðindin, sagði hann), að ég vildi gefa upplýsingar í þessu máli og leiðrétta það, sem hann sagði.

Hv. flm. blandar saman tveimur atriðum í þessu máli, tveimur dómum.

Það fyrsta, sem var til umr. í Hafnarfirði, var það, að stofnað var nýtt verkamannafélag í Hafnarfirði og gerðir samningar við það félag af ýmsum atvinnurekendum í Hafnarfirði. Það var þetta atriði, sem verkamannafélagið „Hlíf“ vildi ekki hlíta. Út úr því spannst svo deilan um það, hver hefði réttinn til vinnunnar, hvort það væri verkamannafélagið „Hlíf“ eða hið nýstofnaða verkamannafélag í Hafnarfirði. Þessu var skotið til félagsdóms, sem dæmdi það þannig, að hið nýstofnaða verklýðsfélag væri löglega stofnað, en að hinsvegar allir atvinnurekendur í Hafnarfirði væru bundnir við samninga sína við „Hlíf“. Þar með unnu má segja báðir aðilar. Það var viðurkennt og dæmt rétt að vera, að nýja félagið væri löglega stofnað. En hinir, sem vildu krefjast þess, að atvinnurekendur væru skuldbundnir til að skipta við félagsmenn í „Hlíf“, þeir unnu sitt mál í því efni í dóminum. Þetta var fyrri dómurinn.

Hinn dómurinn var út af því, að þessir menn, sem voru í nýja félaginu, unnu hreint og beint á móti hinu félaginu, þ. e. „Hlíf“, en voru samt sem áður nauðbeygðir til að vera í „Hlíf“, af því að annars höfðu þeir ekki vinnu. Verkamenn í „Hlíf“ bentu þá á það ákvæði í l. félags síns, að ef einhver félagsmaður vinnur á móti hagsmunum félagsins, skal hann vera rækur úr félaginu. Og þess vegna voru um 100 menn reknir úr „Hlíf“. Um þetta var svo seinni dómurinn, sem var frestað. Því að um fyrri dóminn gekk allt eins og lög gera ráð fyrir; það var dæmt í því máli eins fljótt og unnt var. En seinni dóminum var frestað. En það var vitanlegt, og það vissi hver einasti Hafnfirðingur, að verkamenn í Hafnarf. ætluðu ekki undir neinum kringumstæðum að láta koma til átaka milli þeirra um þetta eina atriði fyrr en dómurinn væri fallinn í félagsdómi, hvenær sem hann yrði kveðinn upp. Það vissi hver Hafnfirðingur og það var vitað, að verkamenn þar mundu biða með þennan ágreining sinn eftir dómi félagsdóms.

Ég býst við, að hv. flm. hafi verið þetta ókunnugt, en þá upplýsi ég þetta hér með. Enda var, eins og hæstv. ráðh. gat um, fullkominn vinnufriður í Hafnarfirði meðan á þessum fresti stóð.

Annars ætla ég, sem sagt, ekki að blanda mér neitt í þessa deilu. Ég vildi bara gefa þessar upplýsingar, til þess að sýna fram á, hvað rétt er í málinu og að þarna er tveimur dómum ruglað saman.

Það, sem olli mestum vandræðum, og það mál, sem mestur hitinn varð út af, var fyrra málið, og í því var dæmt í félagsdómi án þess að nokkur hefði nokkuð að athuga við dráttinn á því. Og báðir aðilar hlýddu dóminum. Og ég verð að segja, að það var einmitt málið, sem allt reis út af, hverjir hefðu réttinn gagnvart atvinnurekendunum, — og það voru „Hlífar“menn. Og þeir sigruðu í því máli, en ekki hinu.