09.03.1939
Neðri deild: 16. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í B-deild Alþingistíðinda. (40)

7. mál, skuldaskilasjóður vélbátaeigenda

*Frsm. meiri hl. (Gísli Guðmundsson) :

Þetta frv. er um staðfestingu á bráðabirgðal., sem út voru gefin af atvinnumálaráðuneytinu 14. nóv. síðastl. og fóru fram á það að verja allt að 90 þús. kr. af ónotuðu fé skuldaskilasjóðs til sérstakra skuldaskila fyrir meðlimi samvinnufélaga. Sjútvn. hafði frv. til meðferðar, og var meiri hl. n. ásáttur um að leggja til, að frv. yrði samþ. og bráðabirgðal. þannig staðfest, en minni hl., sem hefir ekki enn skilað nál., hefir sérstöðu í málinu.

Þegar l. um skuldaskil voru samþ., var aðallega miðað við útgerð einstaklinga, og einstakir útgerðarmenn fengu ekki aðeins upp gefnar skuldir, er tilheyrðu útgerð þeirra, heldur og skuldir, er á þeim hvíldu sem einstaklingum. En þegar um samvinnuútgerð var að ræða, komu ekki til greina skuldir meðlima samvinnufélaganna sjálfra, svo að eftir að skuldaskil höfðu verið framkvæmd, voru oft af kröfuhöfum gerðar kröfur á hendur þeim um greiðslur. Þar sem þetta gat ekki talizt viðunandi, var á síðasta ári samþ. heimild um, að verja mætti fé úr sjóðnum til að koma fram skuldaskilum fyrir meðlimi þessara félaga, og til framkvæmdar þeirri heimild voru bráðabirgðal. gefin út.

Sjútvn. leggur til, sem sagt, að frv. verði samþ.