23.03.1939
Efri deild: 23. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í B-deild Alþingistíðinda. (437)

50. mál, útvarpsrekstur ríkisins

Brynjólfur Bjarnason:

Ég get ekki fallizt á það, sem hv. 5. landsk. sagði um þetta frv. Ég tel, að með þessu frv. sé farið fram á verulega skerðingu á rétti útvarpsnotenda. Hv. 5. landsk. hélt því fram, og því er einnig haldið fram í grg. frv., að útkoman af kosningum til útvarpsráðs myndi verða að miklu leyti sú sama, hvort sem þetta frv. yrði að l. eða það fyrirkomulag héldist, sem nú er. Ég held, að þetta sé sagt nokkuð út í bláinn og þessi ályktun sé alls ekki rétt. Það er alveg augljóst, hverskonar menn það yrðu, sem Alþ. myndi kjósa í útvarpsráð. Það myndu verða pólitískir fulltrúar þeirra þriggja stjórnmálaflokka, sem kallaðir eru „ábyrgir“. En samkv. núgildandi l. eru aftur á móti líkindi til þess, að a. m. k. einn frjálslyndur maður yrði kosinn af hlustendum, og ég hygg, að þetta frv. sé borið fram í því skyni að koma í veg fyrir það. Það mun vera hinn raunverulegi tilgangur þessa frv., enda þótt tylliástæður séu bornar fram í grg. frv. og af 5. landsk., að það sé flutt í sparnaðarskyni.

Það er heldur ekki rétt, sem stendur í grg. þessa frv., að kosning af hálfu útvarpsnotenda hljóti eingöngu undir öllum kringumstæðum að verða pólitísk. Slík fullyrðing hefir ekki við nein rök að styðjast. Útvarpsnotendur líta á sína hagsmuni og velja því þá menn í útvarpsráð, sem þeir treysta bezt til þess að gera dagskrá þess þannig úr garði sem þeir helzt óska eftir. Sem sagt, eina röksemdin, sem fram hefir verið færð fyrir þessu frv., er sú, að það muni hafa í för með sér sparnað á þeim útgjöldum, sem kosning meðal útvarpsnotenda myndi hafa í för með sér, og auk þess á það líka að vera sparnaðarráðstöfun að fækka þeim mönnum, er sæti eiga í útvarpsráði. Ég held, að sú leið væri fær, að fækka meðlimum ráðsins, án þess að taka þann rétt af útvarpsnotendum að kjósa ákveðinn hluta þess. En hvað sparnaðarhlið málsins snertir, hygg ég, að í fyrsta lagi sé óvíst, að þessi kosning þurfi að verða svo dýr, að hún kosti 12 þús. kr., og í öðru lagi hygg ég, að meiri þörf sé á sparnaði annarstaðar en á því sviði, sem beinist að því að spara lýðræðið, og þar sem ekki er um stærri fjárhæð að ræða en þessa. Ef farið yrði út í almennan sparnað á sviði lýðræðisins, þá mætti ef til vill spara með því að Alþ. kæmi aðeins saman áttunda hvert ár. eða fækka þm. niður í 25, eða fækka ráðh. úr þremur niður í einn, í stað þess að fjölga þeim upp í 5, eins og sagt er, að sumir fulltrúar hinna „ábyrgu“ stjórnmálaflokka vilji nú gera. (MJ: En hvað er þá um hina ábyrgðarlausu?). Því get ég ekki svarað, en það tel ég víst, að sparnaðarröksemdir þessa frv. eru ekkert annað en tylliástæður, og ég hygg, að það væri enginn skaði, þótt þetta frv. kæmist ekki lengra en til 1. umr. hér í Ed.