09.03.1939
Neðri deild: 16. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í B-deild Alþingistíðinda. (44)

7. mál, skuldaskilasjóður vélbátaeigenda

Atvmrh. (Skúli Guðmundsson):

Hv. 6. þm. Reykv. hóf ræðu sína á því að tala um, að með þessu væri ábyrgðarmönnum í fiskveiðasamvinnufélögum gert hærra undir höfði heldur en ábyrgðarmönnum annarra útgerðarfyrirtækja. Eins og ég hefi áður bent á, er hér um útgerðarmenn að ræða, eigendur þessara útgerðarfyrirtækja, en ekki aðeins ábyrgðarmenn þeirra. Hv. 6. þm. Reykv. getur ekki bent á nokkra aðra eigendur þessara fyrirtækja heldur en þessa félagsmenn. Þetta er félagseign þeirra, og þeir eru því hliðstæðir öðrum útgerðarmönnum. Þetta kom greinilega í ljós hjá hv. 6. þm. Reykv., þegar hann fór að útlista, hver væri munurinn á ábyrgðarmönnum fyrir útgerðarsamvinnufélög og einstaklingsútgerðarfyrirtæki. Hann sagði sem sé, að munurinn væri sá, að þeir fyrrnefndu réðu, hvernig fyrirtækjunum væri stjórnað, en hinir síðarnefndu hefðu ekkert um það að segja. Þetta er einmitt munurinn á eigendum fiskveiðasamvinnufélaganna annarsvegar og ábyrgðarmönnum útgerðarfélaga einstakra manna hinsvegar.

Ég geri ekki ráð fyrir, að það sé rétt, sem hv. þm. hélt fram, að þeir, sem stofnað hafa slík fiskveiðasamvinnufélög og hér um ræðir, hafi fyrst og fremst gert það í von um hagnað. Þessi fyrirtæki hafa í flestum tilfellum risið upp vegna þess, að knýjandi þörf hefir verið á því fyrir viðkomandi sjávarþorp eða héruð að fá nýjan atvinnurekstur, þegar sá, sem fyrir var, hafði orðið að hætta. Þetta hafa því verið atvinnubótafyrirtæki fyrir viðkomandi staði, eða sjálfsbjargarviðleitni manna á þessum stöðum, frekar en að þau séu stofnuð í von um mikinn gróða.

Ég get ekki fallizt á þá skoðun hv. 6. þm. Reykv., að það sé óviðeigandi form fyrir fjáreyðslu, sem hann nefnir svo, að fá þetta samþ. á Alþ. í sambandi við afgreiðslu fjárl. Ég veit ekki betur en það hafi tíðkazt við afgreiðslu fjárl., að samþ. séu þær lántökur eða greiðslur úr ríkissjóði, sem ætlazt er til að fari fram. Og þetta á svo að vera. Ég vil benda á, að þessar heimildir, bæði til að verja nokkru fé til útlána handa þessum samvinnufélögum og eins heimild til þess að selja strandferðaskipið og kaupa annað í staðinn, hafa verið samþ. hér á Alþ. af meiri hl. þm. Get ég ekkert athugavert séð við þá afgreiðslu á neinn hátt.

Ég get ekki gert að því, þótt mér takist ekki að sannfæra hv. 6. þm. Reykv. um, að mér hafi ekki verið ljóst á síðasta þingi, hvort þyrfti að gefa út þessi l. eða ekki. Ég sagði honum þá, ef ég man rétt, vegna fyrirspurnar, að mér væri algerlega óljóst, hvort lagasetningar þyrfti með í þessum efnum. Hv. 6. þm. Reykv. hlýtur að vita, að það er oft, að samningar takast milli kröfuhafa og skuldunauta án þess þurfi að gefa út um það l. Það sannar ekkert eða afsannar, þótt búið hafi verið að gera uppkast að frv. um þetta efni. Ég leit svo á, að óþarft væri að setja l. viðvíkjandi þessu, fyrr en séð væri, að þeirra þyrfti með. Taldi ég sjálfsagt að reyna fyrst samninga og grípa ekki til lagasetningar, nema fullvíst væri, að viðunandi úrlausn fengist ekki fyrir þessa félagsmenn. Ég lýsti þessu yfir á síðasta þingi, ef ég man rétt, og hafði í því tilfelli enga þýðingu, hvort ég hafi verið búinn að leita til svo og svo margra lögfræðinga eða ekki. Ég þurfti ekki að leita til neinna lögfræðinga til þess að fá að vita, að það kemur, sem betur fer, oft fyrir, að menn komist að samningum um sín skuldamál án þess að grípa þurfi til lagasetningar í því efni.