04.04.1939
Neðri deild: 36. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í B-deild Alþingistíðinda. (458)

50. mál, útvarpsrekstur ríkisins

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Út af þeim ummælum, sem féllu hjá hv. 3. þm. Reykv., vil ég taka fram, að eftir að hafa fengið vitneskju um, hvernig þessi hv. þm. hagaði sér hér úti í nánd við alþingishúsið í gærkvöldi, þar sem hann hvatti til lögbrota, þá fann ég fullkomna ástæðu til þess, um leið og hann fer í útvarpið og hans flokkur, að skýra þeim frá því, að ef þeir notuðu útvarpið til þess að hvetja til óspekta, þá verði því lokað fyrir þeim. Ríkisútvarpið er ekki kostað af þjóðinni til þess, að í því sé hvatt til lögbrota. Þetta er ekki annað en kurteisisskylda að tilkynna þeim fyrirfram. Þeir mega gjarnan flytja sitt mál þar eins og aðrir. Þetta vald hefi ég að sjálfsögðu sem dómsmrh., því að það liggur í hlutarins eðli, að útvarpið verður ekki notað til þessa. Það væri af mér sem dómsmrh. beinlínis brot og vanræksla á skyldu minni, sem ég hefi sem dómsmrh., ef ég léti slíkt viðgangast, og það er ekki nema kurteisisskylda að láta þá vita þetta fyrirfram. Út af þessu vanstilltist hv. 3. þm. Reykv., og um það skal ég ekki fjölyrða.