04.04.1939
Neðri deild: 36. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í B-deild Alþingistíðinda. (459)

50. mál, útvarpsrekstur ríkisins

*Sigurður Kristjánsson:

Út af því, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði um það, að önnur flokkaskipting væri hér á þingi en úti á landi, þá veit ég, að það er rétt. Þetta á sér alltaf stað, að meiri og minni afstöðubreytingar landsfólksins verði til stjórnmálaflokkanna á milli kosninga. Og ég geri ráð fyrir, að þetta sé töluvert miklu meira nú en venjulega. En hér er um að ræða framtíðarskipulag, og verður því ómögulegt að miða við annað en það, og það er líka venjulegt, að eitthvað séu svipuð pólitísk hlutföll á Alþ. og meðal fólksins úti um land. Og við það er miðað í löggjöfinni, að það sé vilji fólksins, sem þingfulltrúarnir framkvæma, ef þeir ekki beinlínis brjóta gefin loforð við kosningar, sem stundum kemur fyrir. Ég held því, að við hljótum að viðurkenna það, að kosning í útvarpsráð hér á þingi er hliðstæð við margar aðrar kosningar. sem fram fara á Alþ. og taldar eru í samræmi við þjóðarvilja. — Ég viðurkenni, að það, sem kom hér inn í umr. áðan viðvíkjandi útvarpinu. á ekki skylt við þetta mál. En af því að hv. 3. þm. Reykv. og hæstv. forsrh. hafa minnzt hér á misnotkun útvarpsins, get ég ekki látið hjá líða að lýsa því yfir, að ég álit, að þær umr. í útvarpinu, sem stofnað er til í kvöld, séu misnotkun á útvarpinu. Þessar umr. eiga ekki að fara fram frá Alþingi, heldur útvarpssal. Ég álít, að útvarpið eigi sjálft að ákveða, hvað í gegnum það er flutt, og virðist það ganga ofbeldi næst að taka þessa stofnun og láta fara fram umr. um ákveðið mál í gegnum útvarpið til landsfólksins eftir flokkaskiptingu, en alls ekki eftir því, hvernig menn skiptast með eða móti frv. Hér getur ekki um annað verið að ræða en misnotkun, þegar stofnað er til áróðurs fyrir ákveðið mál, því annars myndi ræðutímanum verða skipt þannig, að hann væri jafnlangur fyrir þá. sem með málinu væru, og hina, sem eru á móti.