04.04.1939
Neðri deild: 36. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 207 í B-deild Alþingistíðinda. (461)

50. mál, útvarpsrekstur ríkisins

*Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þetta mál. Það er vitað öllum þingheimi, að það er ekki hægt að láta fara fram útvarpsumr. um einstök mál frá þingsölum, til þess að tefja þau ekki. Einmitt þessar umr. í gærkvöldi þurftu að byrja fyrirvaralaust, af því að það mál er ekki hægt að afgreiða nema með því móti, sem gert var. Þess vegna var sú leið valin, að allir stjórnmálaflokkarnir fái sömu aðstöðu til að tala í útvarpið eins og þeir hafa hér á Alþ. Hér er því enginn óréttur ger.

Viðvíkjandi einu atriði, sem hv. 3. þm. Reykv. reiddist svo mjög út af, að ég myndi ekki láta fara fram útvarpsumræður, sem miðuðu að því að espa menn upp til lögbrota, þá er það sjálfsagður hlutur. Það væri einkennilegt ríki, sem hagaði sér þannig, að það notaði þau tæki, sem það hefði komið sér upp, til þess að láta espa til lögbrota.

Það væri einkennilegur forsrh. sem léti slíkt viðgangast. Við viljum stuðla að málfrelsi og að hver og einn, sem kemur fram í útvarpið, fái sett fram sínar skoðanir og rök fyrir þeim. En sú regla verður að gilda, að þeir æsi ekki til lögbrota. Ég lýsi hv. 3. þm. Reykv. ósannindamann að því.