04.04.1939
Neðri deild: 36. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 207 í B-deild Alþingistíðinda. (464)

50. mál, útvarpsrekstur ríkisins

*Einar Olgeirsson:

Það er auðséð, að ákveðið samband er á milli þessa frv., sem hér um ræðir, og ýmislegs annars, sem er að gerast í þjóðfélaginu. Ég minntist á þetta í gær. Og allt þetta stefnir að því að tryggja vald pólitískra flokka yfir útvarpinu, og þar með einoka jafnvel útvarpið fyrir þá pólitísku flokka, sem eins og nú standa sakir á Íslandi, eftir líkum að dæma, koma til með að mynda ríkisstj.; svo þegar ofan á þetta bætist það, sem gert hefir verið viðvíkjandi úrskurði, sem forseti Sþ. gerði hér á dögunum, að svipta Sósíalistafl. réttinum til að geta heimtað útvarpsumræður, og þar við bætist nú hótun hæstv. forsrh., þá er auðséð, að frv. það, sem hér liggur fyrir, er einn þáttur í ákveðinni stefnu, sem núverandi ríkisstj. og væntanlegir stuðningsflokkar hennar eru að beita sér fyrir að framkvæma.

Það er auðséð, að ef þetta frv. verður samþ., þá eykst hættan á, að útvarpið verði misnotað. Hér er verið að svipta útvarpsnotendur réttinum til að hafa áhrif á útvarpið. Það er verið að breyta útvarpinu úr því að vera almenn þjóðstofnun og yfir í að vera svo að segja stofnun stj., og þegar hæstv. forsrh. er að tala um, að koma verði í veg fyrir misnotkun á tækjum ríkisins, þá á hann þar ekki við annað en að útvarpið sé fyrst og fremst tæki stj. Og þegar einstakir borgarar þjóðfélagsins — það skiptir ekki máli, þó að það í þessu tilfelli sé hæstv. forsrh. — ætla að taka sér rétt til að kveða á um, hvað sé að æsa til lögbrota, þá sjáum við, hvert stefnt er með hlutleysi útvarpsins. Ég veit ekki, hvaðan hæstv. ráðh. kemur sá réttur. Slíkt heyrir ekki undir hann, heldur dómsvaldið. Hinsvegar vil ég geta þess í þessu sambandi, að það, sem við fulltrúar Sósialistafl. höfum gert í sambandi við þetta mál, sem afgr. var í gær, er að skora á verkalýðinn að sjá um, að stjórnarskráin verði haldin, halda fast í þau mannréttindi, sem verkalýðurinn hér á landi hefir fengið með lögum frá Alþingi og með stjórnarskránni, og sjá um, að þau verði varðveitt, berjast fyrir, að meiri hluti verkamannastéttarinnar verði ekki hnepptur í þrældóm, að verkamannastéttin verði ekki sett undir undantekningarlög og svipt sínu frelsi. Það, sem við því höfum gert, er að skora á fólkið að varðveita stjórnarskrána og mannréttindin, og ef sá maður er til, sem ætlar að leggja slíkt út sem lögbrot, þá sjáum við, hvert stj. og flokkar hennar stefna.

Viðvíkjandi því, sem hæstv. forsrh. sagði, að ekki hefði verið hægt að útvarpa umr. í gær, vil ég benda á. að á því voru fullkomlega möguleikar. Þó að 1. umr. hefði ekki verið útvarpað, þá var samt hægt að útvarpa 2. umr., sem hefði ekki tekið nema 3–4 tíma. Frv. hefði því alveg eins getað orðið l. síðustu nótt fyrir því.

Ég vil svo að endingu í sambandi við þetta frv. og það, sem fram hefir komið af hálfu hæstv. forsrh., benda mönnum á, hvert stefnt sé með því að ætla að leggja það vald, sem hann virðist nú ætla að taka sér, í hans hendur, og mótmæla hans framkomu og skilningi og um leið því, að þetta frv. verði gert að lögum.