30.03.1939
Neðri deild: 30. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í B-deild Alþingistíðinda. (517)

42. mál, útsvör

*Frsm. (Sveinbjörn Högnason) :

Ég sé ekki betur en það sé misskilningur hjá hv. 7. landsk., að maður, sem rekur allan sinn atvinnurekstur í Reykjavík, en býr t. d. í Hafnarfirði, eigi að greiða allt útsvar sitt þar. Í 9. gr. l., c-lið, stendur, að útsvari beri að skipta milli sveita, „ef rekin hefir verið utan heimilissveitar verzlun, selveiði, hvalveiði, síldarkaup, síldarsala, síldarverkun eða síldarbræðsla, verksmiðjuiðnaður hverskonar sem hann er, enda þótt skemur sé rekið en 4 vikur“. Hvað þá ef öll atvinnan er rekin utan heimilissveitar og allt árið. Þá ber auðvitað enn fremur að skipta því. Í 8. gr. l. segir þó, að ekki skuli skipta útsvari milli staða, ef ekki er höfð heimilisföst atvinna á báðum stöðunum. Þetta telur allshn. reglu, sem hentugra sé að fylgja en láta leggja á menn á mörgum stöðum.

Í till. hv. þm. A.-Húnv. segir, að leggja megi á mann á fleiri stöðum en einum, „ef hann hefir heimilisfasta atvinnustofnun eða útibú víðar en í einni sveit, eða ef telja má, að aðalatvinnugrein hans sé rekin utan heimilissveitar, enda má þá ekki leggja á hann að því leyti í heimilissveit hans“. Ég sé ekki, að mikill munur sé á þessu og því, sem er í l., nema sá, að þetta getur valdið meiri ruglingi og orðið manninum óþægilegra.