17.04.1939
Efri deild: 41. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í B-deild Alþingistíðinda. (526)

42. mál, útsvör

*Frsm. (Ingvar Pálmason) :

Þetta frv. er komið hingað frá hv. Nd., og er sú breyt., sem það gerir ráð fyrir á l. um útsvör, einungis þess efnis að hreyta því ákvæði útsvarsl. um skiptingu útsvara á milli hreppa þannig, að tími sá, sem útgerðarfyrirtæki eru rekin í sveit eða bæ utan heimilisfangs útgerðarfyrirtækisins, skuli vera færður úr 4 vikum upp í 3 mánuði í þessu lagaákvæði. Er þetta til samræmis við ákvæði útsvarsl. um verkamenn og aðra, sem stunda atvinnu utan heimilissveitar. Í því sambandi er þetta takmark í núgildandi lögum ákveðið 3 mánuðir.

Allshn. fellst á þessa breyt. og leggur til, að frv. verði samþ. En ég tel rétt að geta þess um leið fyrir mína hönd og máske að einhverju leyti fyrir hönd meðnm. minna, að ég lít þannig á, að ákvæðin í útsvarsl. um skiptingu útsvara milli hreppa séu ákaflega athyglisverð, og að það sé orðið svo ástandið í sumum landshlutum, að það sé mikil ástæða til, að þessi ákvæði l. væru athuguð, því að það er svo ástatt t. d. í Austfirðingafjórðungi, að þar hafa verið aflaleysisár undanfarandi og eru jafnvel enn, og nálega allur fiskiskipafloti Austfirðingafjórðungs stundar veiðar utan heimilissveitar á vetrarvertíð, ýmist hér við Faxaflóa, við Vestmannaeyjar eða Hornafjörð, og á sumrin síldveiðar fyrir Norðurlandi. Og sjá það allir, að það getur leitt til stórkostlegra vandræða um afkomu heimilissveitar viðkomandi útsvarsgreiðenda, ef þessum ákvæðum er fylgt út í æsar eftir því, sem l. nú gera ráð fyrir. Því að þegar svo er komið, að um ekki neinn rekstur á þessum fyrirtækjum er að ræða í heimilissveitinni, þá sjá allir, hvert stefnir um afkomu sveitarfélagsins, þó hinir sömu, sem sækja atvinnu sína annað, hafi þar kannske einhverja lítilsháttar atvinnu einnig.

Mér þykir rétt að taka þetta fram hér, því að ég fel líkur til, að ekki geti liðið langur tími, þangað til þessi ákvæði verði tekin til rækilegrar athugunar. Hinsvegar vildi n. ekki að þessu sinni leggja út í það, vegna þess að hún hefir ekki haft nægilegan undirbúningstíma til þess að hera fram brtt., og sérstaklega vegna þess, að n. sú, sem ríkisstj. skipaði í vetur til þess að athuga fjárhagsafkomu bæjar- og sveitarfélaga, virðist ekki hallast að því að ganga lengra í þessu efni heldur en að hækka það tímatakmark, sem farið er fram á í þessu frv. En ég hygg, að full ástæða sé til þess, að þetta mál verði tekið til rækilegrar athugunar.

Um frv. sjálft þarf ég ekki að fara fleiri orðum; það skýrir sig sjálft. Og ég geri ráð fyrir, að sama verði ofan á í þessari hv. d. og í hv. Nd., að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.