17.04.1939
Efri deild: 41. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í B-deild Alþingistíðinda. (527)

42. mál, útsvör

*Bernharð Stefánsson:

Ég er hv. frsm. n. sammála um það, að full ástæða væri til þess að taka útsvarslöggjöfina í heild sinni til endurskoðunar. Og mitt álit er það, að þessu sérstaka atriði, sem tekið er til meðferðar í frv. því, sem hér liggur fyrir, liggi ekki svo mikið á, að nauðsynlegt sé að afgreiða það áður en sú heildarathugun fer fram. Það er nú nokkurn veginn víst, að það, sem liggur til grundvallar fyrir þessu frv., er nákvæmlega það sama eins og fyrir frv., sem hér var til umr. fyrir nokkru um síldarverksmiðjur ríkisins, að þessu er alveg sérstaklega stefnt að einum kaupstað landsins, nefnilega Siglufirði. Að vísu talaði hv. frsm. n. um ástæðurnar í Austfirðingafjórðungi í þessu sambandi, en ég hygg þó, að það sé atvinnurekstur utanbæjarmanna á Siglufirði, sem hafður hefir verið fyrir augum, þegar frv. var borið fram. En eins og ég sagði áðan, er ég honum sammála um, að hin mesta nauðsyn sé á að taka útsvarslöggjöfina til gagngerðrar endurskoðunar. Það hefir verið svo nú á seinni árum, að eftir því, sem bæirnir hafa stækkað og fólki í þeim fjölgað, hefir án efa verið mjög erfitt að leggja á í þeim útsvör á þeim sama grundvelli eins og verið hefir undanfarið hér í landinu, nefnilega að útsvarsálagningin hefir að mjög verulegu leyti byggzt á kunnugleika niðurjöfnunarnefnda um efnahagsástæður og afkomu skattþegnanna. Og nauðsynin á því, að hafa ákveðinn grundvöll til að byggja á um útsvarsálagningu, verður þess vegna alltaf meiri og meiri. Enda er það svo í hinum stærri bæjum, að þar er hafður ákveðinn útsvarsstigi, sem niðurjöfnunarnefndirnar búa til. En þó gildir sín regla um þetta í hverjum bæ, og fer það algerlega eftir geðþótta niðurjöfnunarnefndanna, hverskonar útsvarsstigi er notaður. Ég held nú — ég slæ því nú bara fram — að það sé kominn tími til þess að ákveða í l. útsvarsstiga, sem notaður verði í bæjum hér á landi. Mér finnst því ekki rétt, bæði af þessum ástæðum og öðrum, að vera að taka hér einstakt atriði út úr útsvarsl. til þess að breyta því, heldur finnst mér, að nauðsynlegt muni vera að endurskoða þau í heild sinni, og það sem fyrst.

Þegar útsvarslöggjöfin var sett — 1926, ef ég man rétt — þá var reynt að haga því svo, að atvinnurekstur væri útsvarsskyldur sem allra mest þar, sem hann er stundaður, en atvinnustundun væri aftur ekki útsvarsskyld. Nú er flutt frv. um það að breyta þessum grundvelli algerlega.

Ég held, að það sé margt, sem þarf að athuga í sambandi við þetta. Þær sveitir og þau bæjarfélög, sem eru þannig sett, að menn leita þangað sérstaklega til atvinnurekstrar úr öðrum héruðum, komast ekki hjá því, eins og öllum má ljóst vera, að leggja í margskonar kostnað einmitt vegna þess, að þessi atvinna er þar stunduð. Það má náttúrlega segja, að það séu mikil hlunnindi, að þessi atvinna er stunduð þar. En það er þó margt fleira, sem kemur til greina. Og ég held, að það sé meira vandaverk að ákveða rétt skiptingu á þessu heldur en svo, að það sé rétt af hæstv. Alþ. nú, að lítt yfirveguðu máli, að fara að breyta l. í þessu efni. Af þessum ástæðum, sem ég nú hefi talið, vil ég leggja það til, að stjórninni sé falið að undirbúa þetta mál betur og leggja frv. til endurskoðaðra útsvarslaga fyrir næsta þing, eða þá framhaldsþing af þessu þingi, ef því skyldi verða frestað.

Ég leyfi mér því að legga til, að frv. þessu verði vísað til ríkisstj.