17.04.1939
Efri deild: 41. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í B-deild Alþingistíðinda. (535)

42. mál, útsvör

Páll Zóphóníasson:

Ég vil algerlega mótmæla því, að ég komi hér fram sem forsvari Siglufjarðar sérstaklega í þessu máli, ef það hefir átt að liggja í orðum hv. 2. landsk. þm. (SÁÓ). Ég tel hinsvegar mjög vafasamt, að það beri að breyta því ákvæði, sem hér er um að ræða. Það eru að sjálfsögðu ýms önnur atriði í útsvarsl., sem þörf er á að athuga, og ég sé enga ástæðu til þess að fara nú að hrófla við þessu eina atriði, sem er vafasamt. Og ég ætla, að sú brýna þörf, sem hv. 2. þm. S.-M. talaði um, að væri á þessari breyt. fyrir báta á Austurlandi, sé ekki til staðar. Ég hygg, að þar séu sárafáir bátar, sem koma til með að borga útsvör á tveimur stöðum, líklega ekki nema Birkir og Stella. Frá Keflavík hefir engin krafa komið um skiptingu, og mun varla koma héðan af. Ég álít því, að það hafi litla þýðingu, hvort þessu atriði verður breytt fyrr eða seinna, en tel sjálfsagt að hafa það í sem beztu samræmi við allsherjarbreyt. þá, sem þarf að gera á útsvarsl.

Hvað síldarsöltunina snertir, álít ég, að ef hún er í einstakra manna eign, sé dálítill vafi, hvort eigi heldur að telja hana undir 2. tölul. 9. gr. eða undir c-lið fyrst í 9. gr. Það getur t. d. orkað tvímælis, hvort leggja megi útsvar á síldarsöltunarstöð Ingvars Guðjónssonar eða ekki. Að öðru leyti en því getur ekki fengizt skipting á hans útsvari.

Þetta er líka atriði, sem þarf að athuga í sambandi við breyt. á útsvarsl. Vil ég því ákveðið mæla með því, að málinu verði vísað til ríkisstj., eins og till. hv. 1. þm. Eyf. fer fram á.