22.04.1939
Efri deild: 46. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 233 í B-deild Alþingistíðinda. (553)

42. mál, útsvör

*Bernharð Stefánsson:

Ég vil taka undir það, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, en því miður hefi ég litla von um, að ræða hans muni bera árangur, því að það er furðulegt kapp, sem er lagt á að koma þessu litla frv., sem kallað er, í gegnum þingið.

Mér sýnist, að afgreiðsla þessa máis og þessara mála stefni í raun og veru í algert óefni og allar líkur til, að úr þessu verði algert þinghneyksli. Hér stendur til að gera þetta frv. að l., og eins og hv. 1. þm. N.-M. gat um, þá er nú búið að afgr. til þessarar d. annað frv. um breyt. á sömu l. Auk þess virðast allir sammála um, að útsvarslögin þurfi gagngerðrar endurskoðunar við. Það má því búast við, að stj. láti endurskoða þessi l. og leggi fyrir þingið, þegar það kemur saman að nýju, frv. til breyt. á þeim, eða þá að einstakir þm. taki sig fram um að bera slíkt frv. fram. Það gæti því farið svo, að á einu og sama þingi væru fyrst samþ. tvenn l. til breyt. á einum og sömu l., og síðan væru þau l., sem væri tvíbúið að breyta, numin úr gildi og önnur l. sett á því sama þingi. Þetta virðist mér, að alveg gæti legið fyrir. Það má kannske segja, að himinn og jörð forgangi ekki út af þessu, en ákaflega er slík afgreiðsla á málum einkennileg.

Hv. 2. þm. S.-M. minntist á það í ræðu sinni, að þótt endurskoðun á útsvarslögunum kynni að vera æskileg, þá gerði hann ekki ráð fyrir, að hún gæti farið fram mjög bráðlega, því að ýmis sjónarmið mundu koma fram og ágreiningur, sem sennilega mundi tefja málið. Þetta getur vel hugsazt, en ég man þó, að þegar útsvarslögin voru sett 1926, þá bar það mál þannig að, að Alþingi árið áður, 1925, samþ. ályktun um að skora á stj. að undirbúa löggjöf um þetta efni, og síðan gekk næsta þing frá henni, og var þó þar um algerða stefnubreyt. að ræða frá því, sem áður hafði verið um útsvarslög. Ég sé ekki, ef þessi undirbúningur væri góður, að það gæti ekki tekizt sæmilega að endurskoða útsvarslögin og afgreiða þau, ekki einu sinni á næsta þingi, heldur á síðari hluta þessa þings.

Við 2. umr. þessa máls bar ég fram þá till., að málinu væri vísað til stj., en sú till. var felld. En ég býst við, að hv. dm. hafi þá ekki verið búnir að átta sig til hlítar á því, hvernig þetta raunverulega horfir við að formi til, hvað sem um efnishliðina má segja. Ég vil því leyfa mér að gera tilraun til þess enn á ný, að þetta mál verði afgr. á þinglegan og forsvaranlegan hátt, og hefi því hugsað mér að bera fram rökst. dagskrá þess efnis, að deildin treysti ríkisstj. til að framkvæma endurskoðun á l. um útsvör og leggja árangur þeirrar endurskoðunar fyrir síðari hluta þessa þings eða næsta reglulegt Alþingi, og taki því fyrir næsta mál á dagskrá. Þetta finnst mér sú eina afgreiðsla þessa máls, sem forsvaranleg er.