22.04.1939
Efri deild: 46. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í B-deild Alþingistíðinda. (554)

42. mál, útsvör

Forseti (EÁrna):

Mér hefir borizt rökst. dagskrá frá hv. 1. þm. Eyf., svo hljóðandi:

„Í trausti þess, að ríkisstj. láti fram fara endurskoðun á lögum um útsvör, nr. 106 23. júní 1936, og leggi árangur af þeirri endurskoðun fyrir síðar á þinginu eða á næsta reglulega Alþingi, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá“.

Þessi dagskrá liggur þá einnig fyrir til umr. Út af þeirri ósk, að málið verði tekið af dagskrá, skal ég geta þess, að ég treysti mér ekki til þess nema að bera það undir hv. d. Sé d. því samþykk, mun ég gera það. En jafnframt vil ég vekja athygli á því, að ég hefi hugsað mér að setja fund þegar að þessum fundi loknum og taka þá til meðferðar mál þau, sem hafa komið frá Sd., og mál. sem þessi fundur hefir afgr. til 3. umr. Ef þetta mál verður tekið af dagskrá nú, þá mun ég taka það á dagskrá strax aftur. Það er líklegt, að þing verði háð á mánudag a. m. k., og er þá ef til vill ráðrúm til að taka málið nánar til athugunar.