21.02.1939
Neðri deild: 5. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í B-deild Alþingistíðinda. (609)

9. mál, ráðstafanir vegna yfirvofandi styrjaldar

Atvmrh. (Skúli Guðmundsson) :

Þetta frv. á þskj. 9 er fram borið til að fá staðfest bráðabirgðalög frá 28. sept. síðastl. um heimild fyrir ríkisstj. til ýmislegra ráðstafana vegna yfirvofandi styrjaldar í Norðurálfu. Á þeim tíma, sem þessi bráðabirgðalög voru gefin út, leit mjög ófriðlega út í álfunni, og var aðalefni bráðabirgðal. heimild handa ríkisstj. til að setja fyrirmæli um sölu og úthlutun á nauðsynjavörum, et mikil hætta væri talin á, að styrjöld brytizt út í Norðurálfu, og meðan hún stæði yfir, ef hún brytizt út. Sem betur fór rofaði til í bili, og hefir því ekki þurft að grípa til bráðabirgðal., en þótt ekki líti eins ófriðlega út nú eins og þá, er vafalaust full ástæða til — vegna þeirrar ófriðarbliku. sem stöðugt er á lofti — að athuga sem bezt, hvaða ráðstafanir hægt er að gera til að búa þjóðina undir ófrið.

Ég tel rétt, að þessu frv. verði vísað til allshn.umr. lokinni, og væri þá þess vert, að n. tæki jafnframt til íhugunar, hvaða ráðstafanir kynni að vera rétt að gera í framtíðinni, þó að nú virðist hafa rofað til frá því, er bráðabirgðal. voru sett.