20.02.1939
Neðri deild: 4. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í B-deild Alþingistíðinda. (68)

8. mál, námulög

*Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Ég býst ekki við, að skoðanir séu skiptar um það hér á Alþ., hvort rétt sé að samþ. l. eins og þau, er hér liggja fyrir. Ég geri ráð fyrir, að ekki séu skiptar skoðanir um það, að ríkisstj. eigi að geta komið í veg fyrir, að hér séu seld allskonar réttindi án þess að við vitum, hvað við erum að selja, þannig að það endurtaki sig hér hjá okkur Íslendingum sama sagan, sem hefir átt sér stað hjá nágrannaþjóðunum, sem hefir kostað þær þjóðir miklu meira en þurft hefði að vera, ef þær hefðu haft um slíkt lög.

Ég geri ekki heldur ráð fyrir, að skiptar séu skoðanir um, að rétt sé að taka hér upp almenna rannsókn á þeim auðæfum, sem hér kunna að vera í jörðu fólgin.

En þá er þriðja atriðið, hvort ríkisstj. hafi veitt þeim mönnum, er leituðu eftir málmvinnsluleyfi hér á landi, eðlileg og rétt svör. Ég tel, að þetta mál sé að nokkru leyti utanríkismál um leið og það er fjármál. Og þess vegna voru þeir flokkar, sem fulltrúa eiga í utanríkismálan., fengnir til þess að ræða við þá menn, sem eftir þessu leituðu. Það voru fengnir fulltrúar frá þessum þremur flokkum til þess að þeir gætu fengið að heyra, hvað þessir útlendingar, sem eftir þessu leituðu, höfðu fram að færa, svo að þeir (fulltrúarnir) gætu myndað sér skoðun á málinn, svo að það gæti verið algerlega hafið yfir flokkadrátt þeirra flokka, sem sæti eiga í utanrmn. Svör hafa svo verið veitt þessum útlendingum, sem hafa verið sameiginleg skoðun þeirra manna, sem sæti eiga í fulltrúanefnd þeirri, sem falið var að tala við þessa útlendinga. Sú leið var ekki fyrir hendi, að þessi n. né ríkisstjórnin gæti veitt þessum útlendingum neitt einkaleyfi, því það er einungis á valdi Alþ. Það lá ekki heldur fyrir, að þessi n. né ríkisstjórnin hefði neitt vald til að ákveða, hvaða útsvar, gjöld til ríkis og toll af verkfærum þessir menn skyldu greiða, því að slíkt er á valdi Alþ., en ekki ríkisstjórnar né annarra aðilja. Þegar þessir útlendingar höfðu athugað málið, urðu þeir á eitt sáttir um það, að í þágildandi námul. vantaði ákvæði um það, hvaða kjör þeir menn ættu við að búa, sem byrjuðu á málmvinnslu hér á landi. Þeir töldu það næsta stig málsins að setja l. um þetta, Þeir ályktuðu sem svo: Ef við förum að grafa þarna vestra, þá erum við ekki tryggir með það, því að önnur félög geta boðið ríkisstjórninni betri kosti næsta ár, sem við erum ekki færir um að keppa við. Það fyrsta álitu þeir því að fá námul., sem og sett hafa verið og nú er leitað samþykkis Alþ. fyrir.

Því var lýst yfir við þá, að áhugi væri fyrir málinu, að það væri rannsakað. Niðurstaðan varð sú, að nauðsynlegt væri, að ný l. væru sett um þessi efni, og á meðan því færi fram, væri þeim frjálst að byrja á rannsókn fyrir vestan. Það hefir því ekki verið slitið sambandinu við þessa menn. heldur hefir því verið haldið opnu, og það hefir verið unnið að málinu á þann hátt, sem báðir aðiljar eru sammála um, að bezt sé.