22.04.1939
Neðri deild: 48. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í B-deild Alþingistíðinda. (696)

88. mál, varnir gegn útbreiðslu garnaveiki

Frsm. (Jón Pálmason):

Það hefir komið í ljós eins og kunnugt er, að það er ekki nóg með, að sú ógæfa hafi elt okkur í sambandi við innflutning á erlendu sauðfé, að fá mæðiveikina, heldur hafa og flutzt inn fleiri pestir, þar á meðal hin svo kallaða garnapest, sem þetta frv. fjallar um. Frv. var undirbúið af mæðiveikin., að tilhlutun hæstv. landbrh., og með því er gert ráð fyrir að halda áfram þeim ráðstöfunum, sem þegar var byrjað á síðastl. vetur til varnar gegn frekari úfbreiðslu þessarar veiki. Er frv. að mörgu leyti sniðið eftir mæðiveikil.

Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að framkvæmdan. mæðiveikivarnanna hafi á hendi stjórn þeirra mála, sem hér um ræðir, undir yfirumsjón landbrh. Er sama manni falin framkvæmdastjórn fyrir þeim ráðstöfunum, sem koma til greina í sambandi við þessar fjárpestir.

Í 2. gr. er farið fram á, að þessari n. sé heimilt að kveðja menn sér til aðstoðar, eftir því sem þurfa þykir. Í næstu gr., 3.–9. gr., er farið inn á svipaðar leiðir, að því er snertir útbreiðsluvarnir, eins og í l. viðvíkjandi mæðiveikinni, að öðru leyti en því, sem raunar er meginatriði, að ekki er gert ráð fyrir neinum varnargirðingum, og kemur það til af því m. a. hvað veikin hefir komið dreift upp og að mikil líkindi eru til þess, að hún sé ekki eins bráðsmitandi eins og mæðiveikin hefir reynzt.

Í seinni gr. þessa frv., 13. og sérstaklega 14. gr., eru ákvæði um það, með hvaða hætti skuli greiddar bætur til þeirra manna, sem verða fyrir tjóni af völdum þessarar plágu, og er þar að nokkru leyti fylgt sömu reglum og hafðar eru við úthlutun á skaðabótum í sambandi við mæðiveikina. Þannig er gert ráð fyrir nokkrum bótum handa þeim mönnum, sem verður að drepa fjárstofninn hjá, bæði vegna rannsóknar og til þess að varna útbreiðslu veikinnar.

Í 14. gr. er ákvæði um það, að þeir, sem af völdum þessarar plágu hafi misst meira en l0% af sínum fjárstofni, fái vaxtatillag og aukajarðræktunarstyrk eftir sömu reglum og gert er ráð fyrir í mæðiveikil.

Ég sé ekki ástæðu til þess, ef engin andmæli koma fram, að fara nánar út í einstök atriði þessa frv. Það er flutt með samkomulagi landbn., mæðiveikin. og hæstv. landbrh. og þarf helzt að fá afgreiðslu þegar á þessu þingi, til þess að fastur grundvöllur sé fyrir þær ráðstafanir, sem hér þarf nauðsynlega að gera, til þess að reyna að koma í veg fyrir, að þessi plágu breiðist út frekar en orðið er.

Ég vil svo vænta þess, að hv. þdm. samþ. þetta frv. og vísi því, að lokinni þessari umr., til 2. umr. Til n. hefir ekki þýðingu að það fari þar sem landbn. er sammála um það og það hefir einnig verið athugað í samráði við hina n.