20.02.1939
Neðri deild: 4. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í B-deild Alþingistíðinda. (70)

8. mál, námulög

*Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Ég vil aðeins svara þessu lítið eitt. Ég er auðvitað ekki hér til þess að taka upp samtöl, sem átt hafa sér stað milli þessara 3 manna og útlendinganna. Um það hafa verið gefnar upplýsingar, sem ástæða þykir til. Það hefir verið gefin skýrsla um þetta mál, sem mun nægja, enda eru í henni þær upplýsingar, sem gefa þarf um þetta mál.

Að ekki verði ráðizt í dýrar rannsóknir, ef ekki liggi fyrir upplýsingar um það, að við seljum þeim réttindi, sem við vitum enn ekki hver eru, styðst ekki við veruleikann. Þessi rannsókn mun kosta 20–30 þús. kr. vegna þess verks, sem búið er að vinna þarna. Það er því hvorki frágangssök fyrir þá né aðra að leggja í þetta þús. pund, eins og það mun kosta að rannsaka það. Hitt hefði verið árásarefni á ríkisstj., ef hún hefði selt þarna réttindi eða látið á einhvern hátt af hendi yfirráðaréttinn yfir þeim, án þess að vita, hvað verið væri að selja. Það er líka enginn vafi á því, að fullkominn vilji er fyrir því í þinginu, að það sé ekki gert. Fyrsta atriðið er að vita, hvað við erum að selja. Ég held, að reynsla hinna Norðurlandanna eigi að vera okkur til viðvörunar. Það er ekki sagt, að við höfum það fjármagn, sem Svíar urðu t. d. að leggja fram til þess að ná í réttindi, sem þeir voru búnir að afsala sér.

Ég er ekki að segja, að þetta mál sé hættulegt gagnvart Íslendingum. En við verðum að vita, hvað það er, sem við ætlum að láta. Það hefir ekkert tilefni gefizt í sambandi við þessar umr. til þess að ætla, að hér sé um eitthvað athugavert að ræða.

Ég vil upplýsa það hér, að það hefir verið álitið, að við gætum unnið hér aluminium, en nú er það komið í ljós við rannsókn, að það er í samböndum, þar sem það er óleysanlegt, a. m. k. með þeim aðferðum, sem þekkjast nú. En í sambandi við þær rannsóknir hefir komið í ljós, að þetta aluminium er í öðrum efnasamböndum, sem geta verið talsvert mikils virði. Þegar farið er að rannsaka þetta aluminium, þá kemur það í ljós, að þar er annað efni, sem notað er við ýmiskonar iðnað, sem ef til vill er hægt að vinna.

Það er satt að segja einkennilegur verzlunarmáti, sem ég vil ekki gefa mig inn á fyrir sjálfan mig, og því síður fyrir ríkið, að selja það, sem maður veit ekki, hversu mikils virði er. Fyrsta atriðið er að vita, hvað maður er að gera.