09.11.1939
Neðri deild: 56. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í B-deild Alþingistíðinda. (716)

100. mál, ferðir skipa

Atvmrh. (Ólafur Thors) :

Í þessu frv. er farið fram á heimild fyrir ríkisstj. til þess, ef hún álitur nauðsynlegt vegna styrjaldarástandsins, að banna öllum að veita upplýsingar um ferðir íslenzkra og erlendra skipa.

Svipuð löggjöf þessari hefir verið sett í nágrannalöndunum. Ríkisstjórninni er að vísu ljóst, að annarstaðar er mjög sennilega miklu meiri þörf fyrir slíka löggjöf en hér. Hún taldi sér samt sem áður skylt að setja slíka löggjöf hér. Stj. leit svo á, að það væri skylda hennar að búa sem örugglegast um hnútana viðvíkjandi siglingum okkar og gera allar þær ráðstafanir, sem hægt væri til að fyrirbyggja óþarfa hættur, sem steðja að okkar sjómönnum. Hætturnar eru nógar samt, þótt allt sé gert, sem unnt er, til að draga úr þeim.

Það má ef til vill deila um, hvort þessarar löggjafar sé þörf hér, en hitt munu menn sammála um, að hún geti ekki valdið neinu tjóni, og þess vegna sé sjálfsagt að setja þessi ákvæði.

Ég tel ekki þörf að fjölyrða frekar um þetta mál, en óska eftir, að því verði vísað til allshn. að lokinni þessari umr.