06.11.1939
Efri deild: 54. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 258 í B-deild Alþingistíðinda. (732)

94. mál, Útvegsbanki Íslands h/f

*Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson):

Í þeim l., sem gilda um Útvegsbanka Íslands, er gert ráð fyrir, að bankanum stjórni 5 manna fulltrúaráð. En í þeim l. er ekkert ákvæði um kosningu varamanna í þetta ráð.

Nú hefir það viljað við brenna, að aðalmenn í bankaráðinu hafa forfallazt og ekki getað sinnt störfum í bankaráðinu um tíma. Sérstaklega var þetta áberandi í ár, vegna þess að um nokkurn tíma voru 2 af fulltrúaráðsmönnunum fjarverandi, án þess þó að ástæða væri til þess, að þeir segðu af sér störfum þess vegna og aðrir kæmu í þeirra stað.

Á síðasta vori var ákveðið að bæta úr þessari vöntun í l. með því að setja bráðabirgðal. um kosningu 5 varamanna í útvegsbankaráðið. Er frv. þetta staðfesting á þeim bráðabirgðal.

Vænti ég þess, að hv. þdm. geti fallizt á þetta frv., og að því verði svo að lokinni umr. vísað til fjhn.