08.11.1939
Neðri deild: 55. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í B-deild Alþingistíðinda. (789)

98. mál, verkamannabústaðir

*Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Það var lítilfjörleg vörn, sem hæstv. félmrh. hafði fram að bera, enda hæfði hún málstaðnum. Það þarf ekki að renna huganum langt aftur í tímann til að sjá, hvernig þessi gerræðislög eru til komin. Tilgangur þeirra var að ná sér niðri á pólitískum andstæðingum. Í 8 ár hafði Héðinn Valdimarsson veitt forstöðu Byggingarfélagi alþýðu. Undir hans stj. hafa verið reistir þeir verkamannabústaðir, sem hér eru til. Aldrei hefir á þeim tíma, eða þar til Héðinn Valdimarsson gekk í Sósíalistaflokkinn, komið frá hæstv. núverandi félmrh. nokkuð, þar sem sett væri út á stjórnina á félaginu, og Alþýðublaðið átti ekki til annað en hól og þakklæti til Héðins Valdimarssonar fyrir starf hans. Svo er þjóðstjórnin skyndilega mynduð og Stefán Jóhann er með undarlegum hætti gerður félmrh. Og þá eru gefin út þessi klaufalegu brbl. Er ekki vandi að sjá, að þau stöfuðu af þörf hans til að ná sér niðri á hv. 3. þm. Reykv., af því að hann var honum ekki sammála í pólitík. En hér er spurning, sem hlýtur að liggja fyrir Alþingi, hvort það lætur ráðh. haldast uppi að misbeita valdi sínu til að gefa út slík ofbeldislög. Hér er um það að ræða, hvort Alþingi ætlar að horfa aðgerðalaust á það. að einn ráðh. misbeiti valdi sinu á svona alvarlegan hátt. Ræða hæstv. ráðh. sýndi, að hann treystist ekki til að hrekja eitt atriði í ræðu hv. 3. þm. Reykv., enda var hann svo flæktur í sínum eigin mótsögnum, að vart er hugsanlegt annað en íslenzkur dómstóll myndi dæma hann fyrir athæfi hans, ef það yrði ekki beinlínis hindrað af stj.völdnnum. Í grg. fyrir brbl. tjáir hann konungi, að einhver nauðsyn beri til að setja l., nauðsyn, sem ekki var til í öll þessi 8 ár. Þá segir hann þar, að ríkissjóður leggi svo mikinn styrk til byggingarfélaganna, að l. séu nauðsynleg af þeirri ástæðu, þó að sýnt hafi verið fram á, að ríkið leggur í rauninni engan styrk til þeirra. Það hefir ennfremur verið sýnt fram á. hvernig ríkisstj. getur gegnum byggingarstj. og á annan hátt haft nægilegt eftirlit með félögunum.

Þá hefir hæstv. ráðh. ekki hrakið það, að hann hefir sagt rangt til í grg. sinni til konungs. Hann sagði líka konungi, að nauðsynlegt væri að geta út þessi brbl. til tryggingar því, að félögin starfi l. samkvæmt, enda þótt hann geti ekki fært fram eitt atriði til sönnunar því, að félögin hafi brotið. Hann reyndi að nefna eitt dæmi. Hv. 3. þm. Reykv. hefir hrakið það dæmi, og hæstv. ráðh. reynir svo ekki frekar að verja það eða þá grg., er hann hefir lagt fyrir konung. Enda er það vitanlegt, að hér starfa hliðstæð félög, sem ráða sjálf sínum málum á lýðræðisgrundvelli, til dæmis Búnaðarfélag Íslands, sem fær 200 þús. kr. styrk frá ríkinu og auk þess til umráða aðrar upphæðir, sem það ver til styrktar bændum. Og þó hefir enginn ráðh. séð ástæðu til að taka af þeim allt sjálfsforræði með brbl., enda ekki þörf á því, fremur en með Byggingarfélag alþýðu og önnur byggingarfélög.

Þá eru það ósannindi, sem hæstv. ráðh. sagði í framsöguræðu sinni, að kommúnistar hafi viljað einoka undir sína stj. framkvæmd l.

Ég vil spyrja hæstv. félagsmrh. og skírskota til þingsins um það, hvernig hann svarar: Hverskonar stj. er það, sem setið hefir í 8 ár í Byggingarfélagi alþýðu og situr þar enn? Ég veit ekki betur en að þeir þrír menn hafi verið alþýðuflokksmenn, en ekki kommúnistar, og þeir eru það ekki heldur nú, þó að þeir séu í sameiningarflokki alþýðu, enda hafa þeir allt fram á síðustu tíma notið hóls og þakklætis Alþýðublaðsins. Kommúnistar hafa aldrei átt mann í stj. félagsins. Hvernig ættu þeir þá að einoka undir sig stj. félagsins? Ég skil ekki, hvernig maður, sem vill láta kalla sig ráðh., getur dirfzt að koma með svona fjarstæður á þingi.

Svo segir hann, til þess að bæta úr rökskorti sinum, að Héðinn Valdimarsson hafi svikið sína umbjóðendur, og segir hann, að kjósendur muni síðar dæma í því máli. Honum ætti að vera kunnugt um, að reynt var að kveða upp slíkan dóm í vetur á vettvangi, þar sem Alþfl. hafði alltaf ráðið. Hæstv. núv. ráðh. fékk þar eitt atkv., en Héðinn Valdimarsson var kosinn með 150 atkv. Það voru ekki kommúnistar, sem réðu þarna úrslitum; það voru sömu mennirnir og þeir, sem starfað hafa í 8 ár í þessu félagi, sem hér um ræðir, og þeir kjósa aðeins þá stj., er reynzt hefir þeim vel og er eins sinnuð eftir að hún er gengin í Sameiningarflokkinn, af því að hún sá, að Alþfl. hafði brugðizt trausti alþýðunnar. Það er því bezt fyrir hæstv. ráðh. að tala varlega um dóm fólksins. Sá dómur hefir þegar verið kveðinn upp í þessu félagi og Dagsbrún. og Héðinn Valdimarsson þarf ekki að kvarta undan þeim dómi.

Fyrst hæstv. ráðh. fór að tala um starfsemi verkalýðsfélaganna og annað í því sambandi, vil ég spyrja hann, hvort nokkurt verklýðsfélag á landinu hafi þakkað honum fyrir þau verk, er hann hefir unnið í byggingarmálum alþýðunnar. Ég vil líka spyrja hann þess, hvort hann hafi frá nokkru verklýðsfélagi fengið þökk fyrir að gerast félagsmálaráðh., því að vitanlegt er, að eina starfið, sem hann hefir unnið í þessu embætti, er að beita byggingarfélögin gerræði. Annars er ekki von, að hann hafi mikla tilfinningu fyrir verkalýðsfélagsskap. Hann hefir aldrei komið þar nálægt til annars en skríða upp eftir bakinu á alþýðunni og hlaupa þaðan í ráðherrastólinn í hennar óþökk.

Það getur verið, að við hv. 3. þm. Reykv. höfum deilt hér um tölur. En það eru líka til aðrar tölur. sem hafa úrskurðað milli mín og hæstv. núverandi félmrh. Við stóðum eitt sinn báðir við kosningar á Akureyri, hann fyrir Alþfl. og Framsfl., en ég fyrir Kommfl. Hann náði ekki fyrir báða flokkana þeirri atkvæðatölu, sem ég hafði fyrir minn flokk einan. Hann man líka eflaust kosninguna hér í Reykjavík, er hann hrökklaðist af þingi. Fólkið hefir oft fellt dóm sinn um hann. Og í samanburði við Héðin Valdimarsson er ísinn hvað veikastur fyrir hann. Ég vil nú spyrja hæstv. ráðh. og biðja hann að vera nú hreinskilinn einu sinni á æfinni: Hvenær hefir Alþfl. áður fyrr ráðizt á Héðinn Valdimarsson fyrir fjármálaframkvæmdir hans í sambandi við verkamannabústaðina? Hæstv. ráðh. viðurkenndi, að Héðinn væri góður fjármálamaður. En ef rannsakað er, kemur í ljós, að hann hefir einmitt notað þann hæfileika sinn til að stjórna byggingu verkamannabústaða á ágætan hátt. Mætti bera innkaup Héðins Valdimarssonar saman við þau innkaup, sem nú hafa verið gerð fyrir „verkamannabústaðina“ í gæsalöppum á Rauðarárholtinu. Þessi brbl. verða prófsteinninn á það, hve mikið er til af heiðarleik hér í þinginu. Þeir hv. þm., sem hlustað hafa á ræður þeirra hv. 3. þm. Reykv. og hæstv. félmrh., geta ekki verið í vafa um það, hvor hefir réttara fyrir sér. Ég þekki, held ég, svo vel til þm. hér í hv. d., að ég þarf ekki að vera í neinum vafa um það, hvernig þeir hugsa í þessu máli. Ég hefi líka falað við svo marga menn utan Alþingis, bæði Alþfl.-menn og framsóknarmenn, að ég veit, hvernig þeir líta á þetta yfirleitt. Hitt er annað mál, hvort svívirðing samábyrgðarinnar er svo sterk, að þm. skoði sig yfirleitt bundna við að leggja blessun sína yfir hvaða óhæfuverk, sem ráðh. kann að fremja. Það fer þá að verða lítil sú trygging, sem þjóðin á í Alþingi, ef hún getur ekki treyst því, að þm. felli l., sem flutt eru fram með rangindum af ráðh., sem svífst þess ekki að misnota vald sitt. Það fer þá að verða erfitt að ná lögum og rétti í landinu, ef ekki er hægt að fá hv. þm. til að átta sig á því, hvernig í þessu máli liggur. Það er ekki til neins að reyna að koma sér hjá því að hugsa rökrétt með því að hrópa: kommúnistar, kommúnistar! Meðan heilbrigð skynsemi fær að njóta sín, munu þm. dæma eftir réttiætistilfinningu sinni, nema þá að stjórnmálaspillingin verði henni yfirsterkari. Ég mun því greiða atkv. móti þessu frv. og treysti jafnframt hv. þm. til að athuga vel þau gögn, sem fyrir hendi eru í málinu.