09.03.1939
Neðri deild: 16. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í B-deild Alþingistíðinda. (79)

8. mál, námulög

*Frsm. (Vilmundur Jónsson) :

Allshn. hefir átt kost á að athuga brtt. á þskj. 29. Um fyrri brtt. er það að segja, að n. sér sér ekki fært að mæla með því, að hún verði samþ. Telur hún, að ef lögfesta ætti, að birta skuli leigu- og söluskilmála hér að lútandi, þá væri það brot á almennum viðskiptareglum og myndi hindra, að menn legðu í slík fyrirtæki, en það væri gagnstætt því, sem hv. flm. till. ætlast til. Hinsvegar eru engin vandkvæði á því fyrir þingið að fylgjast með gerðum ríkisstj. í þessum málum.

Um síðari till. er það að segja, að n. hefir tilhneigingu til að fallast á hana. Ef um meiri háttar námugröft væri að ræða, væri nær, að þingið hefði síðasta orðið, en ekki ríkisstj., sérstaklega ef um útlendan rekstur væri að ræða eða málmvinnslu, sem hefði þýðingu í hernaði. Þó að n. mæli ekki með þessari till., vill hún samt beina því til þeirra, sem fá l. til endurskoðunar, að taka þetta atriði sérstaklega til athugunar.